Blautleg kvæði til kvenna, karla og drengja

10.03.2017 - 18:43
„Þessi skáldskapur fjallar um kynlíf og kynferði á dálítið annan hátt en við erum vön, það skortir eitthvað upp á okkar hugmyndir um pena og rétta tjáningu,“ segir Þorsteinn Vilhjálmsson um bókina Manstu líkami, en hún inniheldur djarfan kveðskap úr forngrísku og latínu.

Meðal skáldanna sem eiga ljóð í bóinni eru Þeognis, Saffó, Catúllus, Óvidius, en þarna er að auki að finna ljóð eftir nýgríska skáldið Kavafis, en hann sótti mikið í hina fornu hefð.

Skáldskapargrein þessi kallast lýrísk, en Þorsteinn segir að mikið af þessum kveðskap hafi ekki verið þýddur ellegar hafi hann þá verið mjög ritskoðaður og það jafnvel í fræðilegu útgáfum.

„Það sem sameinar eru kannski þessar heitu tilfinningar, algjört hömluleysi í tjáningu, en bundið inn í samfélagslegar hugmyndir sem fyrir okkur eru oft gríðarlega framandi. Eitt af því eru drengjaástirnar sem hjá okkur myndu teljast til glæpsamlegs athæfis.“

Eitt kvæðið, eftir Óvidíus, var á sínum tíma þýtt af Bjarna Thorarensen. Jón Sigurðsson forseti komst í textann og var ekki hrifinn, skrifaði út á spássíu á óútgefnu handriti orðið „klám“.

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Kiljan