Blatter og Platini áfrýja dómi siðanefndar

11.01.2016 - 00:45
epa04948790 (FILE) A file picture dated 29 May 2015 of FIFA President Joseph Blatter (L) being congratulated by UEFA President Michel Platini (R) after his election as FIFA president during the 65th FIFA Congress in Zurich, Switzerland. The Office of the
Blatter og Platini er báðir gríðarlega umdeildir. Platini ætlar samt að bjóða sig fram.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE FILE
Sepp Blatter og Michel Platini ætla báðir að áfrýja átta ára banni sem þeir hlutu af hendi siðanefndar Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA. Lögfræðingar þeirra staðfestu það um helgina.

Ástæða bannsins er greiðsla sem Platini fékk frá FIFA árið 2011 upp á tvær milljónir svissneskra franka, jafnvirði um 260 milljóna króna, vegna vinnu fyrir sambandið á árunum 1999 til 2002. Niðurstaða nefndarinnar er að enginn lagalegur grunnur hafi verið fyrir greiðslunni.

Í gær færði siðanefndin þeim gögnin sem notuð voru til stuðnings bannsins. Eftir að hafa fengið þau afhent gátu þeir tekið ákvörðun um hvort þeir áfrýji banninu, sem þeir hafa nú báðir gert. Ef áfrýjunarnefnd FIFA hafnar beiðni þeirra geta þeir leitað til Gerðardóms íþróttamála, æðsta dómstigs í íþróttaheiminum.

Platini ákvað í vikunni að hætta við framboð sitt til forseta FIFA. Hann segist ætla að eyða allri sinni orku í að verjast ásökunum siðanefndarinnar. Nýr forseti FIFA verður kosinn 26. febrúar.