Blair mótmælir Brexit

17.02.2017 - 19:10
epa05387567 Former British Prime Minister Tony Blair (L) arrives at the headquarters of the 'Vote leave' campaign in central London after the British Prime Minister David Cameron announced his resignation after losing the vote in the EU
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.  Mynd: EPA
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, vill nú róa öllum árum að því að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu. Núverandi utanríkisráðherra hvetur landa sína til að slökkva á sjónvarpinu næst þegar þegar Blair sést bregða þar fyrir.

Fyrrverandi forsætisráðherrann kom sér beint að efninu í ræðu sem hann hélt í Lundúnum í dag. Hann virti að sjálfsögðu vilja meirihluta þjóðarinnar en að kjósendur hefðu verið blekktir.

„Kjósendur gengu til atkvæða án þess að vita hvað Brexit hefði í för með sér. Þegar afleiðingarner eru nú að koma í ljós hafa kjósendur rétt á því að skipta um skoðun. Okkar markmið er að telja þeim hughvarf,“ sagði Tony Blair í dag.

Stjórnarliðar gáfu ekki mikið fyrir þessar hugmyndir - nú þegar ferlið sé komið svo langt og njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar. 

„Með fullri virðingu fyrir Tony Blair og þeim sem hvetja Breta til að rísa upp á afturlappirnar gegn Brexit vil ég gjarnan hvetja landa mína til að slökkva á sjónvarpinu næst þegar Tony Blair sést bregða þar fyrir,“ sagði Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.

Er markmið Blairs raunhæft?

 

Geta Bretar hætt við fyrirhugaða útgöngu úr sambandinu úr þessu?

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki lagalega bindandi og frumvarp laga sem heimilar ríkisstjórn Theresu May að hefja viðræður við Evrópusambandið hefur enn ekki verið að fullu samþykkt. Frumvarpið hlaut brautargengi í neðri málstofu breska þingsins á dögunum og það bíður nú atkvæðagreiðslu í lávarðadeild þingsins. 

Örfáir möguleikar eru því í stöðunni til að hætta við fyrirhugaða útgöngu, einn þeirra væri ef þingmenn boðuðu til þingkosninga og að flokkur sem styddi áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu næði meirihluta.

Þó möguleikarnir séu fræðilega fyrir hendi verður að teljast ólíklegt að þeir verði að veruleika. Þá er það nánast ómögulegt út frá pólitísku sjónarhorni að stjórnvöld í Bretlandi skipti um stefnu í þessum efnum.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV