Blaðamaður Morgunblaðsins vitni að hnífsstungu

06.03.2016 - 15:10
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Fórnarlambi hnífsstunguárásar í Vesturbænum í nótt er haldið sofandi í öndunarvél eftir að hafa gengist undir aðgerð. Blaðamaður Morgunblaðsins var vitni af árásinni.

Mbl.is greinir frá því að blaðamaður Morgunblaðsins hafi orðið vitni að átökum tveggja manna við Stúdentagarðanna á Sæmundargötu í nótt. Á vef Mbl kemur fram að mennirnir hafi skipst á hnefahöggum um stund og tekið svo að glíma hvor við annan. Fáeinum sekúndum síðar lauk áflogunum og gengu þeir á brott, hvor í sína átt. 

Blæddi þá mikið úr baki annars mannsins og kallaði kona til hans af svölum íbúðar á Stúdentagörðunum og lét hann vita að það blæddi úr honum. Skömmu síðar kom lögregla á vettvang og fyrir utan húsið mátti sjá stórar blóðslettur á gangstéttinni.

Líðan mannsins sem var stunginn er stöðug. Metið verður eftir skýrslutöku hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir hinum grunaða.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV