Blaðamaður fékk tölvupóst ætlaðan nefndarmanni

14.09.2016 - 20:08
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokks, sendi Jóhanni Páli Jóhannssyni, blaðamanni á Stundinni, tölvupóst sem átti að fara á Pál Jóhann Pálsson, þingmann Framsóknarflokks og nefndarmann í fjárlaganefnd. Í tölvupóstinum segir Vigdís vera „skíthrædd“ um að Steingrímur J. Sigfússon myndi fá skýrslu hennar um einkavæðingu bankanna hina síðari.

Stundin greindi frá tölvupóstinum nú síðdegis. Vigdís birtir á Facebook-síðu sinni skjáskot af tölvupóstinum og skrifar: „Ég birti hér tölvupóstinn - því það er ekkert í honum sem hægt er að blása upp - en það er merkilegt að sjá hvernig fjölmiðlar fjalla á mismunandi hátt um skýrsluna.“

Í tölvupóstinum segir Vigdís það hafi verið „statement“ að greiða kostnaðinn við skýrsluna sjálf og ber það saman við kostnað skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Vigdís segir jafnframt að Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi hlaupið á sig. „Því miður hljóp Oddný á sig í kvöld og dissaði íslenskunni í skýrslunni – en s.s. hún kom úr íslensku og innsláttarvillulestri s.l. mánudag (ég var skíthrædd við að SJS myndi fá hana) – en þingið hélt trúnaði. Annars hlakka ég til að hitta þig á morgun,“ skrifar Vigdís í tölvupóstinum til Jóhanns Páls blaðamanns.