Björk styrkir Pussy Riot með bolasölu

25.08.2012 - 16:44
Mynd með færslu
Björk Guðmundsdóttir er í hópi þeirra sem vilja að pönksveitinni Pussy Riot verði sleppt úr haldi. Íslenska söngkonan hefur nú sett í sölu boli til styrktar sveitinni á vefsíðu sinni. Allur ágóðinn af sölu bolanna rennur til styrktar barna kvennanna sem eiga það á hættu að vera send í fóstur.

Frá þessu er greint á fréttasíðu Rolling Stone. Bolina er hægt að nálgast hér en þeir kosta 20 pund. Björk hefur látið sig málefni rússnesku pönksveitarinnar varða síðan þær voru ákærðar og síðar dæmdar í tvegga ára fangelsi fyrir skrílslæti í rússneskri kirkju en þær hafa um árabil barist gegn ríkisstjórn Vladimír Pútins.

Björk tileinkaði hljómsveitinni nýlega lagið Declare Independence á tónleikum en meðal annarra frægra tónlistarmanna sem hafa lagt málefninu lið eru Madonna og Paul McCartney.