Björgvin: Þetta verða alvöru slagsmál og læti

19.01.2016 - 08:00
Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkmaður í handbolta býst við mikilli hörku í leiknum við Króata á EM í kvöld. Hann segir að það hafi tekið tíma að jafna sig eftir tapið fyrir Hvít-Rússum á EM.

„Það gekk illa en það tókst. Ég gróf mig svolítið ofan í holu og setti sjálfkrítík á mig. Ég horfði á þennan blessaða leik aftur tvisvar og svo fékk ég eitt „ég elska þig“ frá dóttur minni og þá var þetta búið.“

Kunnum að koma okkur í vandræði

Ísland er nánast með bakið upp við vegg og þarf helst að vinna Króata, ef ekki til að komast upp úr riðlinum þá til að komast með einhver stig í milliriðilinn. Þetta er staða sem landsliðið þekkir vel frá fyrri mótum.

„Ef við kunnum eitthvað þá er það að koma okkur í vandræði. Okkur tókst það í þetta skiptið enn og aftur en það er ekkert búið í þessu. Það er það jákvæða við þetta.“

Þetta verða alvöru slagsmál og læti

Um varnarleikinn segir Björgvin. „Við þurfum að ná okkar vörn upp aftur sem við sýndum á móti Þýskalandi og Noregi og fókusera mikið á okkur sjálfa. Ef við náum okkar vörn upp þá þurfum við ekkert mikið að spá í hinum. Ef við förum að velta því mikið fyrir okkur hvernig þeir eru að spila þá gleymum við að hugsa um okkur sjálfa. Þeir töpuðu líka síðasta leik þannig að þetta verður spurning um hausinn, hvort liðið er klárara í dæmið. Þetta verða alvöru slagsmál og alvöru læti. Það lið sem er með hausinn meira í lagi vinnur þennan leik.“

Leikur Íslands og Króatíu í kvöld hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á RÚV og lýst beint á Rás 2.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður