Björguðu þúsundum á Miðjarðarhafi

16.03.2016 - 23:18
Áhöfnin á varðskipinu Tý bjargaði 342 flóttamönnum af trébát 13. apríl 2015
 Mynd: Landhelgisgæslan
Björgunarsveitir á Miðjarðarhafi hafa komið yfir 2.400 flóttamönnum til hjálpar síðastliðinn sólarhring. Fólkið var á leið frá Líbíu yfir hafið til Evrópu.

Flest flóttafólkið sem bjargað var er frá löndum í Vestur-Afríku, að sögn ítölsku strandgæslunnar. Töluvert rólegra hefur verið á þessari flóttamannaleið að undanförnu en oft áður, einkum vegna ótryggs ástands í Líbíu og óhagstæðs veðurs á Miðjarðarhafi. Um það bil 9.500 flóttamenn hafa þó verið fluttir til hafnar á Ítalíu frá áramótum, sem er nokkuð færra en á sama tíma í fyrra. Til samanburðar má nefna að á þessum tíma hefur yfir 143 þúsund flóttamönnum tekist að komast yfir Eyjahaf til grísku eyjanna.

Yfirvöld á Ítalíu óttast að flóttamannastraumurinn frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf eigi eftir að aukast á næstunni, ekki síst vegna tilrauna Evrópusambandsins til að stöðva strauminn frá Tyrklandi til Grikklands. Samkvæmt gögnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa um það bil 330 þúsund flóttamenn náð til Evrópu frá Líbíu frá því í ársbyrjun 2014 til þessa dags.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV