Bjóða ókunnugum í jólamatinn

22.10.2011 - 19:56
Mynd með færslu
Hátt í hundrað Íslendingar hafa skráð sig til þátttöku í markaðsverkefninu Íslendingar bjóðum heim! Búið er að framlengja verkefnið út af afar sérstöku heimboði sem haldið verður í desember, verkefnu átti að ljúka í lok nóvember.

Aðstandendur markaðsverkefnisins Íslendingar bjóðum heim segjast ánægðir með hvernig því hefur verið tekið. Verkefnið gengur út á að fá fólk um allt land til að bjóða ferðamönnum að gera eitthvað sérstakt og skemmtilegt með þeim. Markmið verkefnisins er að fá fleiri ferðamenn yfir vetrarmánuðina. Sumir gestgjafar eru persónulegir og bjóða heim aðrir nýta sér framtakið til að koma vörum sínum og fyrirtækjum á framfæri. Hátt í hundrað heimboð hafa borist, flestir hafa skráð sig í boð borgarstjórans í Höfða og í boð forsetahjónanna á Bessastöðum. Hægt er að skoða heimboðin á heimasíðunni inspiredbyiceland.com. 

Heimboðin eru af ýmsum toga. Og það er búið að framlengja verkefnið því að fjölskylda ein verður með afar sérstakt heimboð í desember. „Við ætlum að bjóða útlendingum að koma til okkar á aðfangadagskvöld og borða með okkur og opna pakka,“ segir Tinna Berg Rúnarsdóttir. Fimm höfðu skráð sig í heimboðið síðast þegar hún athugaði stöðuna. „Ég veit ekki alveg hvað við gerum ef það verða tugir manna sem skrá sig en á meðan þeir eru fimm þá bjargast þetta alveg.“

Hins vegar er enn óljóst hvað verður í matinn.