Bjartari tímar í vændum hjá Vopnfirðingum

11.02.2016 - 18:15
Léttir Vopnfirðinga var áþreifanlegur að loknum fundi um atvinnumál á þriðjudagskvöld, þar sem forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að þeir hygðust byggja upp bolfiskvinnslu á ný. 65 manns eru fastráðnir í fiskiðjuveri staðarins sem hingað til hefur aðeins verið starfrækt á meðan vertíðir standa við uppsjávarveiðar. Veiðarnar dragast saman ár frá ári eftir mjög gjöful ár og enn er loðnuvinnsla ekki hafin á Vopnafirði vegna yfirstandandi vertíðar þar sem útgefið aflamark hefur dregist saman.

Fyrirhugaður rekstur bolfiskvinnslu hefst með haustinu en Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri Granda gat ekki svarað því á þessu stigi málsins hversu margir myndu starfa þar. Þó er ljóst unnið verður við frystingu grásleppu og vinnslu hrogna í mars og apríl, þegar loðnuvertíðinni sem hefst í næstu viku verður lokið. Hann sagði jafnframt að um gríðarlega fjárfestingu væri að ræða og ekki væri tjaldað til einnar nætur.

Lítið að gera síðan í nóvember

Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, er stefnt að því að sem stærstur hluti starfsfólksins hafi stöðugri vinnu í kjölfar ákvörðunarinnar og sitji ekki aðgerðarlaust heima eins og raunin hefur verið frá því vinnslustopp hófst í nóvember síðastliðnum. Magnús segir Vopnfirðinga alla mjög spennta en starfsfólk Granda sérstaklega. „Þetta hefur gríðarlega mikið að segja fyrir okkur og Vopnafjörð allan. Það hefur verið lítið að gera hjá okkur síðan í nóvember og við erum því mjög glöð og spennt fyrir þessu verkefni.“

Trú á landsbyggðinni

Á fundinum tók sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, til máls og skýrði stöðu og vilja ríkisstjórnarinnar til að leggjast á árar með Vopnfirðingum og Aðalsteinn Þorvaldsson forstjóri Byggðastofnunnar kynnti þær aðgerðir sem þegar væri búið að ákveða að fara í á staðnum. Aðalsteinn kynnti fyrirhugaðan íbúafund sem Sigurði Inga fannst vel tekið undir að færu fram. Ráðherra varð einnig tíðrætt um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og þá miklu trú á landsbyggðinni og fólkinu sem þar býr, sem birtist í ákvörðun sem þeirri, að byggja upp bolfiskvinnslu til þess að halda í gott starfsfólk.

HB Grandi stærsti atvinnurekandinn

Alls voru 84 einstaklingar með lögheimili á Vopnafirði á launaskrá HB Granda í fyrra og launagreiðslur og gjöld til sveitarfélagsins námu samanlagt um 1200 milljónum samkvæmt tölum sem lagðar voru fram á fundinum. Það er nærri þreföld sú upphæð sem sveitarfélagið sjálft leggur inn í efnahagsreikning íbúa á staðnum. Það er því engin spurning að fyrirtækið er efnhagslegur grundvöllur þess samfélags sem þarna þrífst við nyrsta haf. Allflestir sætta sig við að þannig séu aðstæður og að sjávarútvegurinn sé sú lífæð sem nærir bæinn. Því hefur andlegt ástand íbúa sveiflast með því flæði hráefnis sem er til vinnslu á staðnum.

Skortur á uppbyggingu á öðrum sviðum

Ljóst var þó á fundinum að full þörf er á aðgerðum Byggðastofnunnar, íbúaþingi og hugmyndavinnu í kjölfar þess, þar sem frekari bolfiskvinnsla leysir ekki úr þeim vanda, hversu einhæft atvinnulífið er á staðnum. Það mátti heyra á fundargestum sem gagnrýndu bæði skort á uppbyggingu á ferðaþjónustu á staðnum sem og að öll eggin væru lögð í sömu körfuna.

Nokkur sjónarmið eru uppi og ljóst að uppbygging vinnslunnar á næstu misserum mun kosta hundruði milljóna, samkvæmt yfirlýsingu HB Granda. Þeir hyggjast ekki tjalda til einnar nætur og ljóst að einhverjar forsendur hafa breyst frá því að þeir fluttu alla bolfiskvinnslu frá staðnum fyrir átta árum síðan.

Mörg afleidd störf og trú á samfélaginu

Að sögn Ólafs K. Ármannssonar formanns atvinnumálanefndar bæjarins verða mörg afleidd störf til, ekki aðeins við uppbyggingu vinnslunnar heldur einnig þjónustu við hana. „Þetta kemur til með að skapa festu í samfélaginu, en númer eitt, tvö og þrjú, trú á samfélaginu. Þetta hefur líka aukið trú á fyrirtækinu, Granda.“ Að lokum ítrekar hann þó einnig að íbúar og atvinnurekendur á svæðinu séu ekki stikkfrí. „Við verðum að koma að þessum málum líka af áhuga og ekki bara sitja bak við borð og bíða.“ Hann telur uppbyggingu bolfiskvinnslu einnig stórt tækifæri fyrir minni útgerðir í sjávarútvegi til að landa og vinna afla á Vopnafirði.

Uppsjávarveiðin áfram aðalmálið

Ekki eru miklar líkur á því að umsvif bolfiskvinnslu á staðnum verði þó í nokkurri líkingu við það sem var á árum áður þegar sjávarútvegsfyrirtækið Tangi hf. var upp á sitt besta. Vinnsla uppsjávarafurða verður í forgrunni, eins og kom fram í máli Vilhjálms Vilhjálmssonar á fundinum á þriðjudag. Tangi hf. rann inn í HB Granda þann síðla árs 2006 ásamt útgerðinni Svani RE-45 og var bolfiskvinnlan lögð niður um það bil ári síðar. Vopnafjarðarhreppur, ásamt heimamönnum á Vopnafirði, keypti árið 2003 ráðandi hlut í Tanga hf. af Eskju hf. á Eskifirði en reksturinn gekk ekki sem skyldi og var hreppurinn verulega skuldsettur vegna þáttöku í því verkefni. Staða hreppsins varð mun betri eftir söluna á Tanga og er sveitafélagið í dag rekið með ágætri afkomu.

Sameiningin varð vegna þess að það þótti ljóst að aflaheimildir fyrirtækisins væru ekki nægar til að standa undir rekstri og því var gengið til samninga um sameiningu við stærri aðila til að renna styrkari stoðum undir reksturinn. Sú sameining gerði það að verkum á sínum tíma að HB Grandi hafði yfir mestum kvóta íslenskra sjávarútvegsyfirtækja að ráða. Við sameininguna jókst hlutdeild HB Granda í uppsjávartegundum einnig umtalsvert. Í dag ræður fyrirtækið yfir rúmum 18% af loðnukvótanum sem útgefinn var í síðasta mánuði. Í máli Vilhjálms kom einnig fram að um einhverskonar sérhæfingu yrði að ræða í bolfiskvinnslunni og að hún yrði einungis í gangi þegar uppsjávarveiðar lægju niðri.

Efasemdir smærri útgerða

Á síðustu árum hefur smábátaútgerð byggst upp og starfa 15 útgerðaraðilar við rekstur um 20 báta. Grundvöllurinn að þeim rekstri hefur verið úthlutun byggðakvóta til staðarins, en í gegnum árin hefur bæjarfélagið fengið nærri hámarksúthlutun vegna þess samdráttar sem varð í greininni þegar HB Grandi hætti bolfiskvinnslu. Ljóst er að með aukinni vinnslu á staðnum – ef vinnsla HB Granda verður skráð þar – mun aukningin á milli ára í bolfiskvinnslu væntanlega lækka framlagðan byggðakvóta til Vopnfirðinga verulega. Nema sérstakar aðgerðir Byggðastofnunnar komi til.

Á þeim tíma sem liðið hefur frá því að Tangi rann inn í HB Granda og bolfiskvinnslan var lögð niður hefur stöðug bolfiskvinnsla ekki komist á. Að sögn Odds V. Jóhannssonar formanns smábátafélagsins Fonts, er af fréttum að dæma ekki ljóst hvernig eða hvort fyrirhuguð vinnsla getur nýst þeim útgerðum sem starfa á Vopnafirði í ljósi þess að hún verður ekki rekin á ársgrundvelli. Makrílvertíð og síldarvertíð að sumri og hausti muni ganga fyrir því að vinnsla á bolfiski sem landað er á staðnum verði stunduð. Hann segir of snemmt að spá fyrir um áhrifin í því ljósi. Það geti brugðið til beggja vona. „Vonandi getur þetta bara farið saman, hjá báðum aðilum og það verður allavega nóg vinna hjá fólkinu í Granda allt árið. Við erum ekki farnir að skoða hvernig þetta stendur upp á okkur.“

Enn mörgum spurningum ósvarað

Ekki er víst hvort HB Grandi hyggur á að flytja kvóta eða skip til Vopnafjarðar, en það myndi breyta stöðunni mjög mikið. Eins er ljóst að gagnist bolfiskvinnsla smábátaútgerðunum ekki, munu þeir áfram þurfa að selja afla sinn áfram á markaði, hvort sem um byggðakvóta verður að ræða eða ekki. Eins munu nokkrar útgerðir hætta heilsársrekstri eða leggjast af ef byggðakvótanum verður kippt út úr þeirri jöfnu sem liggur að baki rekstrinum. Líkur er á að Vopnafjörð vanti eftir sem áður bolfiskvinnslu sem starfar á ársgrundvelli ef smærri útgerðirnar eiga að lifa af.