Bjarni vill fresta sölumeðferð vegna Borgunar

11.02.2016 - 19:16
Kynning á niðurstöðum aðgerða ríkisstjórnar Íslands vegna leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og lækkunar höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar.
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telur að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann og vill að ekki verði lengra haldið í sölumeðferð á hlut ríkisins í Landsbankanum fyrr en öll kurl séu komin til grafar í Borgunarmálinu svokallaða.

Þetta kemur fram í bréfi sem ráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins vegna umræðu um sölu Landsbankans á hlut hans í kortafyrirtækinu.

Bankasýsla ríkisins hefur að undanförnu stefnt að því að setja fram tillögu til fjármálaráðherra, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, um sölu á allt að 28,2 prósenta hlut í Landsbankanum. Ákvörðun um næstu skref varðandi sölu eignarhluta í bankanum verður fyrst tekin eftir að tillögur Bankasýslunnar líta dagsins ljós.

Í fyrrgreindu bréfi fjármálaráðherra segir að ljóst sé að slík ákvörðun muni velta á fjölmörgum atriðum og mati á því hvernig heildarhagsmunum ríkisins verði best borgið.

Þá segir í bréfinu frá ráðherra til Bankasýslunnar: „Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann. Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.“

Landsbankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir sölu á 31,2 prósenta hlut bankans í Borgun, sem seldur var bakvið luktar dyr fyrir tæpa 2,2 milljarða króna í lok árs 2014. Ekki síst í ljósi þess að kortafyrirtækið á nú von á 6,5 milljarða greiðslu vegna samruna Visa Europe og Visa Inc. sem ekki var gert ráð fyrir við söluna á eignarhlut Landsbankans.