Bjarni segist sammála Kára

09.02.2016 - 22:34
9/2/2016
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra er sammála Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að gera þurfi betur í heilbrigðiskerfinu. Hann segir að leiðin til þess sé að halda áfram að skapa verðmæti.

Rúmlega 64 þúsund manns hafa nú skrifað undir kröfu Kára til stjórnvalda um að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins. Söfnunin er á meðal stærstu undirskriftarsafnana sem efnt hefur verið til hér á landi. Kári sagði í fréttum í gær að stjórnvöld eigi ekki að líta á undirskriftarsöfnunina sem ógn heldur gjöf. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tekur undir þetta.

„Það má alveg líta þannig á að það sé gjöf til stjórnvalda að fá skýr skilaboð. Þau eru væntanlega þau að fólk vill heilbrigðismálin í forgang. Ef menn horfa á áherslur þessarar ríkisstjórnar af sanngirni er alveg augljóst að við höfum stóraukið framlög til heilbrigðismála og ætlum að gera það áfram,“ segir Bjarni.

Hann segir að búið sé að stórhækka laun í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnin sé hins vegar ekki búin að segja sitt síðasta í heilbrigðismálum og að gera þurfi betur.

„Og í mínum huga er alveg augljóst að til þess þarf að halda áfram að skapa verðmæti. Og við þurfum að losna við skuldir til þess að það fari ekki þetta miklir peningar í vexti, heldur að við getum sett þá í góð mál eins og þessi mál sem við erum að ræða hér.“

Bjarni segir að mark sé tekið á undirskriftasöfnuninni, þótt hugmynd Kára um að verja 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins sé ekki hafin yfir gagnrýni.

„Segja menn að það mætti gera betur og halda áfram? Já, já. Ég ætla ekki að stilla mér á móti fólki sem segir það vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera enn betur. En leiðin þangað er í raun og veru kjarninn í pólitíkinni í dag. Hvernig sköpum við verðmæti til þess að gera þessa hluti betur?“ segir Bjarni.