Bílaförgun í blómlegum vexti

21.01.2016 - 22:39
Ríflega sex þúsum bílum var fargað hér á landi í fyrra. Það er ríflega tvöfalt meira en árið 2011. Þó hefur bílaförgun ekki náð sömu hæðum og árið 2008.

Bílaeign hefur lengi verið talin vera tákn um hversu vel fólk hefur komið undir sig fótunum í lífinu. Það ágæta ár 2007 voru nýskráðar hátt í nítján þúsund fólksbílar og er þá bæði verið að tala um nýjar innfluttar bifreiðar sem notaðar. Á árunum eftir hrun dró verulega úr þessu og aðeins tæpir tvö þúsund og fimm hundruð fólksbílar voru nýskráðir 2009. Síðan þá hefur þetta vaxið jafnt og þétt og í fyrra var fjöldinn yfir fimmtán þúsund.

Með þessum aukna bílainnflutningi þarf náttúrulega að losa sig við eldri bíla. Vaka tekur á móti bílum og undirbýr þá til förgunar. „Það er sem sagt verið að taka vökva af bílnum, olíu, bensín, kælivökva, bremusvökva og rafgeyminn,“ segir Bjarni Ingólfsson, framkvæmdastjóri Vöku. Hann telur að síðustu árin hafi fjölgað um fimmtán prósent á ári þeim bílum sem er fargað.

Hægt er að greina efnahagsástandið nokkuð vel í meðalaldri fólksbíls hér á landi. Þannig var meðalfólksbíllinn rétt rúmlega níu ára 2007 en hefur elst jafnt og þétt. 2014 var hann kominn á táningsaldur, rétt að verða þrettán ára. Ekki liggja fyrir tölur fyrir árið í fyrra.

Þegar búið að tæma bíla af spillefnum eru þeir fluttir í Hringrás þar sem farið en nokkuð óblíðari höndum um þá og þeir kramdir í stóreflis pressu. Þar gefur að líta vænan stafla af krömdum bílum. 

„Næst verða þeir sendir til Evrópu, þar fara þeir í fullkomna endurvinnslustöð sem flokkar þá ítarlega í sundur, tætir þá og flokkar í hverja einustu örðu,“ segir Ásmundur Einarsson, umhverfis- og gæðastjóri Hringrásar.

Árið 2007 var hátt í átta þúsund bílum fargað. Fjöldinn fór yfir átta þúsund árið eftir en síðan dró úr þessu og aðeins tvö þúsund og átta hundruð bílum var fargað 2011. Það hefur síðan aukist og í fyrra var fargað meira en sex þúsund bílum sem er meira en tvöfalt meira en fjórum árum áður.

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV