Bieber setur met í Bretlandi - númer 1,2 og 3

09.01.2016 - 09:38
Kanadíska poppstjarnan Justin Bieber, sem kemur fram á tvennum tónleikum í Kópavogi síðar á þessu ári, setti nýtt met á breska smáskífulistanum í vikunni en hann er með þrjú lög í þremur efstu sætunum. Lagið Love Yourself er í efsta sæti, Sorry er í öðru og What Do You Mean í því þriðja. Enginn listamaður hefur afrekað þetta áður.

Þetta kemur fram á vef BBC. Bieber er annars duglegur að koma sér í fréttirnar – til að mynda greinir breska blaðið Guardian frá því að hann hafi verið beðinn um að yfirgefa svæði í kringum fornminjar frá tímum Maya í Mexíkó eftir að hann sást príla á þeim.   

Enn eru til lausir miðar á aukatónleika Biebers þann 8. september en poppstjarnan féllst á að halda þá í ljósi mikillar eftirspurnar. Um 12 prósent þjóðarinnar mun því sjá Bieber þegar hann kemur til landsins en fram kom á mbl.is að miðasölutekjur af tónleikunum gætu numið 630 milljónum.

Adele er í efsta sæti plötulistans í Bretlandi með plötuna 25 – sjöundu vikuna í röð. Smáskífa hennar Hello er í fimmta sæti á smáskífulistanum. 

Athygli vekur að lagið Ace of Spades með Motorhead er í 13. sæti á smáskífulistanum – aðdáendur Lemmy tóku höndum saman og reyndu að koma laginu í efsta sæti til heiðra söngvara sveitarinnar, Lemmy, sem lést skömmu fyrir áramót úr krabbameini. Hann verður borinn til grafar í dag og verður sýnt beint frá athöfninni á YouTube.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV