Biðja Julian Assange griða

01.03.2016 - 23:27
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Kínverski listamaðurinn og andófsmaðurinn Ai Weiwei, bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Oliver Stone og breski fatahönnuðurinn Vivienne Westwood eru meðal fimm hundruð karla og kvenna sem skora á stjórnvöld í Bretlandi og Svíþjóð að leyfa Julian Assange að fara frjálsum ferða sinna úr sendiráði Ekvadors í Lundúnum.

 

Með þessari áskorun er tekið undir með vinnuhópi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að Assange hafi með óréttmætum hætti verið haldið föngnum í sendiráðinu í fjögur ár. Meðal annarra sem skrifa undir áskorunina eru Yannis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, mexíkóski leikstjórinn Alfonso Cuaron og Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafi Nóbels, frá Íran.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Julian Assange. Svíar vilja fá hann framseldan vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Sjálfur segist Assange ekkert hafa gert af sér. Hann óttast að Svíar framselji sig til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér ákærur vegna leyniskjala sem birt voru á WikiLeaks uppljóstrunarvefnum.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV