Betur fór en á horfðist

11.01.2016 - 22:10
Mynd með færslu
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson  Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Mikil mildi þykir að ekki varð stórtjón þegar eldur kom upp í fiskeldisstöð Stofnfisks við Kalmanstjörn í Reykjanesbæ í kvöld. Engir fiskar drápust og skemmdir á stöðinni sjálfri eru minniháttar.

Tilkynnt var um eldinn laust fyrir klukkan sjö í kvöld og stóð þá mikill eldur upp úr þaki hússins. Þegar að var komið reyndist eldurinn staðbundinn og gekk greiðlega að ráða niðurlögum hans. Slökkviliðsmenn reykræstu svo húsið. 

Að sögn slökkviliðsins er talið að eldurinn hafi kviknað vegna bilunar í endurnýtingardælu í rafmagnskerfi sem stjórnar vatnsflæði inn í fiskikörin. Út frá því hafi eldurinn svo náð að læsa sig inn í þakið.

Davíð Harðarson, stöðvarstjóri hjá Stofnfiski, segir að allt útlit sé fyrir að fiskurinn hafi sloppið óskaddaður, en um 15.000 laxar eru í rýminu sem eldurinn kom upp í. Því hafi þetta farið mun betur en á horfðist í fyrstu. Skemmdirnar verði þó endanlega metnar á morgun.

Fiskeldisstöðin við Kalmanstjörn er önnur stærsta laxeldisstöð hér á landi, samkvæmt heimasíðu Stofnfisks.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV