Betra að flestir séu í fullu starfi á LSH

07.01.2016 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd: landspitali.is
Um helmingur sérfræðilækna við Landspítalann er í hlutastörfum. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans segir að því þurfi að breyta, þörf sé á að hafa sem flesta starfsmenn í fullu starfi

Landlæknir sagði nýlega að það samræmdist ekki kröfum háskólasjúkrahúss að sérgreinalæknar væru þar í hlutastörfum á móti einkarekstri á stofum. Erfiðara væri að skipuleggja þjónustu á spítalanum vegna þessa. 

Formaður Læknafélags Reykjavíkur sagði hins vegar í fréttum í gær að þetta væri heppilegt fyrirkomulag, það væri örugglega sparnaður fyrir ríkið að sérgreinalæknar reki starfstöðvar sínar sjálfir úti í bæ.

Páll segir að það sé mat Landspítalans að það sé almennt heppilegra að vera með stóran hluta sérfræðinga í fullu starfi þótt það sé ekki algilt.

Um það bil helmingur sérfræðilækna séu í hlutastarfi og þegar svo sé þá geti í vissum tilfellum verið erfiðara að skipuleggja vaktir. Menn deili kröftum sínum á fleiri en einn og fleiri en tvo vinnustaði og einnig geti verið erfiðara að sinna gæðamálum, kennslu og vísindastörfum sem séu mikilvæg á háskólasjúkrahúsi. 

Auk þess fylgi þessu fyrirkomulagi tvennskonar greiðslukerfi, föst fjárlög og kerfi þar sem greitt er fyrir afköst.

Í velferðaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, á Landspítala og á vegum Sjúkratrygginga er unnið að því að finna lausn á þessu til að gera spítalanum kleift að veita öfluga þjónustu og það kostar peninga, skipulag og starfsfólk

„Við höfum þörf á að hafa sem flest starfsfólk í fullu starfi og ég vona svo sannarlega að samningarnir sem voru gerðir á síðasta ári að þeir hjálpi og séu skref í þá átt því okkur sýnist það að þar hafi kjör heilbrigðisstarfsmanna og þar á meðal lækna batnað töluvert og við vonum að það hjálpi.“