Belgískir öfgamenn dásama árásirnar í Brussel

Mynd með færslu
 Mynd: NN
Mynd með færslu
 Mynd: NN
Tveir belgískir hryðjuverkamenn lofsyngja árásirnar í Brussel á áróðursmyndbandi sem dreift er á Netinu. Þeir hvetja landa sína til að krefjast þess af belgískum stjórnvöldum að þau hætti að senda orrustuþotur og hermenn til Sýrlands og Íraks. Fyrr muni Belgar ekki fá að lifa í friði. Tvímenningarnir dásama árásirnar á franskri tungu og tala um að Belgía hafi verið niðurlægð. Í bakgrunni eru fréttamyndir frá árásunum og eftirleik þeirra.

Báðir eru þeir vel þekktir úr hryðjuverkakreðsum öfgaíslamista. Annar þeirra, Lotfi Aoumeur, kemur frá bænum Verviers, skammt frá borginni Liege. Í fyrra kom hann fram í öðru áróðursmyndbandi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, þar sem hann hótaði árásum á Belgíu. Hann er 25 ára gamall og var tvö ár í belgíska hernum áður en hann hélt til Alsír og þaðan til Sýrlands, segir í frétt flæmska dagblaðsins De Standaard. Hann mun nú vera í Írak.

Hinn maðurinn, Hicham Chaib, var einn af leiðtogum ólöglegu öfgasamtakanna Sharia4Belgium, áður en hann hélt til Sýrlands og gekk í raðir Íslamska ríkisins. Þar komst hann fljótlega til mikilla metorða og er nú sagður yfirmaður trúarlögreglu samtakanna í höfuðvígi þeirra, Raqqa, undir nafninu Abu Mujahid al-Baljiki. Það er hann sem færir löndum sínum í Belgíu þennan lítt sannfærandi friðarboðskap: „Segið leiðtogum ykkar að kalla þotur sínar heim, segið þeim að kalla hermenn sína heim. Og þá fáið þið að lifa í friði.“ Að öðru leyti er orðræða þeirra á kunnuglegum öfgaslóðum, þeir ræða um martröð sem sé rétt að byrja, blóð sem flæða muni um götur og torg og fleira í þeim dúr.