Beittu táragasi á flóttamenn við landamærin

29.02.2016 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Lögregla í Makedóníu beitti táragasi á flóttamenn sem ruddu sér leið gegnum vírgirðingu yfir landamæri Makedóníu frá Grikklandi í dag. Tugþúsundir flóttamanna eru fastir í Grikklandi, eftir að æ fleiri Evrópulönd hafa aukið landamæragæslu til að stemma stigu við straumi flóttamanna.

Til átaka kom milli flóttamanna og lögreglu og landamæravarða í Makedóníu. Hópur flóttamanna braut niður hluta víggirðingar sem lokar landamærum Makedóníu að Grikklandi. Einhverjir náðu að hlaupa yfir landamærin áður en lögregla stöðvaði hópinn með táragassprengjum. 

Um sjö þúsund flóttamenn dvelja nú við landamæri Makedóníu og Grikklands. Flestir þeirra eru frá Sýrlandi og Írak. Yassin Hadba, sýrlenskur flóttamaður, segir æ fleira fólk koma að landamærunum. „Það er ekkert pláss fyrir fólkið. Það eru engin tjöld til, fólk sefur á jörðinni,“ segir Yassin. Darina Finsterer, starfsmaður Lækna án landamæra tekur undir þetta. „Við getum ekki tekið við fleirum,“ segir hún. „Fólkið er örvæntingarfullt, það veit ekki hvað mun gerast eða hversu lengi landamærin verða lokuð,“ segir Darina.

Flöskuháls við landamæri Austurríkis

Langflestir flóttamenn sem koma sjóleiðina til Grikklands halda áfram för sinni til Evrópu gegnum Balkanlöndin og setja stefnuna á Þýskaland. Austurríki hleypir einungis áttatíu flóttamönnum á dag yfir landamæri sín, en meira tvö þúsund flóttamenn hafa komið til Evrópu á hverjum degi það sem af er árs.

Ungverjaland, Slóvenía og Austurríki hafa öll lokað landamærum sínum með víggirðingum, svo að æ fleiri flóttamenn eru fastir í Grikklandi og Balkanlöndunum. Á þriðja tug flóttamanna búa við þröngan kost víðs vegar í Grikklandi. Angela Merkel Þýskalandskanslari segir mikilvægt að leitað verði lausna á þessum vanda á fundi Evrópusambandsríkja í Tyrklandi um flóttamannavandann í næstu viku.