Barnshafandi konur fari ekki til Brasilíu

01.02.2016 - 23:34
epa04924488 Brazilian President Dilma Rousseff speaks during a meeting with members of the Homeless Workers Movement in Brasilia, Brazil, 10 September 2015.  EPA/Fernando Bizerra Jr.
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu.  Mynd: EPA  -  EFE
Forsetaskrifstofan í Brasilíu ræður barnshafandi konum frá því að ferðast til landsins í ágúst þegar Ólympíuleikarnir fara fram í landinu vegna zika-veirunnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti í kvöld yfir neyðarástandi vegna veirunnar, sem talin er valda fósturskaða hjá barnshafandi konum.

Sérfræðingateymi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar kom saman í Genf í Sviss í dag til að fara yfir stöðuna. Í yfirlýsingu sem gefin var út að fundi loknum segir að veiran dreifi sér hratt og fari víða. Afleiðingarnar kunni að verða grafalvarlegar og því verði að bregðast tafarlaust við.

Zika-veiran berst með biti moskítóflugunnar; hún veldur fullorðnu fólki minniháttar veikindum en grunur leikur á að hún geti orsakað fósturskaða hjá barnshafandi konum. Börn þeirra fæðist með óvenju lítið höfuð og heila. Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengið með óyggjandi hætti en vísbendingarnar um það eru sagðar mjög ákveðnar.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV