Barist í tyrkneskum borgum og bæjum

10.01.2016 - 18:16
epa05078928 Turkish police deploy water canons to disperse protesters during a protest against the Turkish Government's ongoing security operations in the east of Turkey, in Diyarbakir, Turkey, 22 December 2015. Turkey has committed some ten thousand
Lögregla notar háþrýstidælur til að leysa upp mótmæli gegn tyrkneskum stjórnvöldum í Diyarbakir, 22. desember.  Mynd: EPA
Tyrkneski herinn segir að 32 skæruliðar PKK – verkamannaflokks Kúrdistans – hafi fallið í bardögum í austur og suðausturhluta landsins síðustu daga. Tveir lögreglumenn og einn hermaður hafa fallið. Liðsmenn PKK berjast fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda. Talið er að um 14 milljónir Kúrdar búa á landsvæði sem er innan landamæra Tyrklands.

 

Að sögn hersins féllu tólf PKK-liðar í borginni Van, þar sem verið var að skipuleggja hryðjuverkaárás. Þá hafi 20 til viðbótar fallið í Cizre og Silopi.

Umsátursástand hefur verið undanfarna mánuði í mörgum borgum á bæjum í suðausturhluta Tyrklands, þar sem mikill meirihluti íbúa eru Kúrdar. Útgöngubann hefur verið vikum saman í Cizre og öðrum bæjum, og í sumum hverfum Diyarbakir, einni stærstu borginni á svæðinu. Íbúar segja að herinn hafi fellt fjölmarga almennra borgara og gerst sekur um gripdeildir. Þá sé óþolandi að þurfa að búa við umsátursástand og útgöngubann svo vikum og mánuðum skipti.

Alls hafa 448 PKK-liðar fallið í bardögum frá því um miðjan desember, að sögn tyrkneska hersins.