Banna þyrluflug í Glerárdal á sunnudögum

20.03.2017 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Umhverfisstofnun hefur heimilað fyrirtækinu Bergmönnum ehf., að flytja skíðafólk inn í Glerárdal á þyrlum. Fyrirtækið sótt um leyfi fyrir slíku hjá stofnuninni þar sem svæðið er friðlýst, en áður hafði Akureyrarbær samþykkt að veita tímabundið leyfi fyrir slíku.

Leyfið frá Umhverfisstofnun gildi frá 15. mars til 30. júní, en í umsögninni segir að þyrluflugið muni hafa í för með sér nokkra truflun fyrir aðra gesti svæðisins. Hávaðinn frá þyrlunum getur aukist í allt frá nokkrum mínútum upp í nokkra klukkutíma innan svæðisins.

Þar sem markmiðið með friðlýsingu Glerárdals er að vernda svæðið til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu, er sú takmörkun sett á leyfið að ekki má fljúga um svæðið á sunnudögum. Þá skal lögð áhersla að takmarka ónæði sem aðrir vegfarendur verða fyrir, svosem með því að forðast að fljúga á tinda þar sem annarra skíða- og gönguhópa verður vart.

Í umsókninni lýstu forsvarsmenn Bergmanna því sem svo, að teknar séu ákvarðanir um áfangastað að morgni hvers dags. Þá er horft til veðurspár, snjóalaga og áhættu. Frá lokum mars og fram til loka maí er helsti álagstíminn, en þá má gera ráð fyrir því að þrjár til fjórar þyrlur séu að fljúga um Tröllaskaga með skíðafólk.