Bankasýslan boðuð á fund

22.01.2016 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bankasýsla ríkisins hefur verið boðuð á fund fjárlagnefndar Alþingis á miðvikudaginn vegna eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður skrifa bæði undir bréf sem sent var Bankasýslunni.

Þar segir að frá því bankarnir hafi komist í hendurnar á ríkinu hafi reglulega borist fréttir af því að eignir hafi verið seldar án þess að farið hafi fram útboð. Megi þar nefna Húsasmiðjuna, EJS, Plastprent, Icelandic, Skýrr, EJS, HugAX, Vodafone, Símann og Borgun.  

Forsvarsmenn stofnunarinnar séu þess vegna boðaðir á opinn fund, miðvikudaginn 27. janúar þar sem farið verður yfir það sem stofnunin hefur gert til að ná fram markmiðum eigendastefnu ríkisins. Samkvæmt henni eigi að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi, auka trúverðuleika á íslenskum fjármálamarkaði og tryggja að ríkið fái arð af fjárfestingu sinni.

Farið verði fram á það við forsvarsmenn Bankasýslunnar að þeir upplýsi hvernig eigendastefnunni hafi verið framfylgt á undanförnum misserum og hvernig það verði gert í framtíðinni. Einnig hvort gerðar hafi verið athugasemdir við verklag fjármálafyrirtækjanna sem ríkið á eignarhlut í vegna sölu eigna eða annarrar starfsemi. Einnig  er spurt hvort Bankasýslan telji að núverandi stefna og þau tæki sem stofnunin hafi séu fullnægjandi eða hvort þurfi að endurskoða það fyrirkomulag.  

„Nú liggur fyrir að enn stærri hluti bankakerfisins verður í höndum ríkisins. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að traust ríki á fjármálamarkaði og ekki síst þegar um er að ræða sölu á eignum og eignarhlutum í stærri fyrirtækjum og fjármálastofnunum.“ 

Bankasýslan er ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir fjármálaráðherra.