Bandarískur blökkumaður sótti um hæli í Kanada

09.01.2016 - 00:46
Mynd með færslu
Ottawa í Kanada.  Mynd: Lezumbalaberenjena  -  Wikipedia common
Dómstóll í Kanada hafnaði á dögunum kröfu bandarísks blökkumanns sem sótti um stöðu flóttamanns í landinu. Hann segist óttast áreitni og ofbeldi af hendi lögreglu vegna húðlitar síns að sögn Flóttamannastofnunar Kanada.

Samkvæmt umsögn dómstólsins virtist ótti mannsins við að snúa aftur til heimalandsins vera sannur, en það væri ekki nóg til þess að veita honum hæli í Kanada. Dómarinn sagði í ákvörðun sinni að kanadísk lög verji menn ekki gegn öllu ofbeldi eða illri meðferð. Hann bætti því við að enginn rökstuddur grunur sé fyrir því að maðurinn eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi þó hann verði sendur aftur til Bandaríkjanna.

Maðurinn, sem heitir Kyle Lydell Canty, sótti um hæli í Kanada í september eftir að hafa komið þangað sem ferðamaður. Hann á rétt á að áfrýja ákvörðuninni. Í nóvember sagðist hann bjartsýnn á að fá hæli í Kanada þó honum yrði neitað í fyrstu tilraun. Bandarísk yfirvöld væru sífellt að myrða, grafa undan og gera lítið úr blökkumönnum. Hann hefur engan áhuga á að snúa aftur til Bandaríkjanna.

Fjöldi blökkumanna hefur verið skotinn til bana af lögreglumönnum í Bandaríkjunum síðasta hálft annað ár. Fjöldahreyfingin Black Lives Matter spratt upp á þeim tíma og berst fyrir sanngjarnari meðferð lögreglu gagnvart blökkumönnum.