Bandaríkjaher styrkir stöðu sína í Sýrlandi

23.01.2016 - 14:28
epa05061125 U.S President Barack Obama meets with a small group of veterans and Gold Star Mothers to discuss the Iran Nuclear deal in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, September 10, 2015.  EPA/Olivier Douliery
 Mynd: EPA  -  ABACA PRESS POOL
Bandaríkjaher vinnur nú að uppbyggingu herstöðvar fyrir sérsveitir og fótgönguliða í norðausturhluta Sýrlands. Herstöðinni er ætlað að styrkja stöðu hersins í hernaðaraðgerðum gegn vígasveitum hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins. Sýrlensk yfirvöld greindu frá þessu í morgun.

Herstöðin verður við flugvöll í borginni Rmeilan í Hasakeh-héraði og verður um 3 ferkílómetrar að stærð. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki staðfest þessar fréttir og segir engin áform um að taka yfir flugvelli í Sýrlandi. Sýrlenska mannréttindavaktin hefur þó staðfest fréttaflutning Sýrlandsstjórnar og segir að Bandaríkjaher vinni nú að stækkun herstöðvar við Rmeilan-flugvöllinn.

Í lok október á síðasta ári heimilaði Barack Obama, Bandaríkjaforseti, að 50 hópar fótgönguliða færu til Sýrlands til að berjast gegn vígasveitum Íslamska ríkisins.

Bandaríkin styðja bandalag Kúrda og uppreisnarmanna sem berjast gegn Íslamska ríkinu í norðurhluta Sýrlands.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV