Bandaríkjaher felur stríðstól í norskum hellum

18.02.2016 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: Ezzex  -  Wikimedia Commons
Bandaríski herinn er að flytja skriðdreka og stórskotaliðsbyssur inn í hella í Noregi til að fela hergögnin fyrir Rússum en nákvæmlega hvar hellarnir eru telst hernaðarleyndamál. Sjónvarpsstöðin CNN hefur eftir bandarískum ofursta í Noregi að þetta stytti viðbragðstíma og spari peninga ef til átaka komi í framtíðinni.

Noregur og Rússland deila tæplega tvö hundruð kílómetra löngum landamærum og var vígbúnaður þar mikill á tímum kalda stríðsins. Rússneski flotinn í Murmansk er aðeins hundrað og sextíu kílómetrum frá landamærunum. Samkvæmt heimildum CNN eru um eitt hundrað norskir og bandarískir hermenn með aðstöðu í hellunum og þar verða brátt næg hergögn fyrir fimmtán þúsund landgönguliða.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV