Bandaríkin verði umlukin myrkri og ösku

14.09.2017 - 06:20
epa06064781 A handout photo made available by the official North Korean Central News Agency (KCNA) allegedly shows the North Korean inter-continental ballistic rocket Hwasong-14 being prepared before a test launch at an undisclosed location in North Korea
Flugskeyti af gerðinni Hwasong-14, sem skotið var á loft 4. júlí.  Mynd: EPA  -  KCNA
Bandaríkin verða lamin niður eins og óður hundur og Japan ætti að verða sökkt í hafið vegna nýrra viðskiptaþvingana gagnvart Norður-Kóreu. Þetta er mat nefndar Norður-Kóreu um frið í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu.

AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni nefndarinnar að nýju þvinganirnar séu andstyggilegar og kallað sé eftir hörðum viðbrögðum gagnvart Bandaríkjunum og bandaþjóðum þeirra. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma að beita Norður-Kóreu hertum þvingunum eftir kjarnorkutilraun í síðustu viku, þá öflugustu hingað til. Meðal annars er hert verulega á útflutningsbanni ríkisins og olíuinnflutningi.

Haft er eftir yfirlýsingu talsmannsins að tími sé kominn til að Bandaríkin verði umlukin myrkri og ösku. Þá verði stjórnvöld í Tókýó að vara sig þar sem þau dansi eftir höfði Bandaríkjanna. Benti hann á flugskeytatilraunina þar sem skeyti var sent yfir norðurströnd Japans í síðasta mánuði. Eyjunum fjórum sem mynda Japan ætti að sökkva í sæ með kjarnavopnaárás á landið.

Viðskiptaþvinganir virðast hafa gert lítið til þess að hægja á vexti vopnabúrs Norður-Kóreu hingað til. Þvert á móti virðast þarlend stjórnvöld eflast í hvert skipti og hafa í enn frekari hótunum þegar þrengt er að þeim.