Bandaríkin sýna hernaðarmátt við Kóreuskaga

10.01.2016 - 05:46
PEN02 - 20030321 -  FAIRFORD, UNITED KINGDOM: One of eight B52 bombers leaves the runway at RAF Fairford laden with bombs en-route for Iraq during a fourteen hour round trip. EPA PHOTO/GERRY PENNY
 Mynd: epa  -  EPA
Bandarísk herflugvél af gerðinni B52 flaug yfir Suður-Kóreu í nótt, nokkrum dögum eftir kjarnorkutilraun Norður-Kóreu. Flugvélin flaug rúmum 70 kílómetrum suður af landamærum ríkjanna.

B52-flugvélinni var fylgt af suður-kóreskum herþotum og einni bandarískri. Hún flaug einn hring um Osan herstöðina í Suður-Kóreu áður en hún flaug aftur á Andersen flugstöðina í Guam, þar sem hún er öllu jafna. Flugvélar af þessari gerð fljúga oft í sameiginlegum heræfingum Bandaríkjamanna og Suður-Kóreu en sjaldnast er það gert opinbert. Síðast var það gert opinbert árið 2013, eftir þriðju kjarnorkutilraun Norður-Kóreu. Þá var B2 orrustuþotu bætt í æfinguna til þess að sýna hernaðarmáttinn sunnan við landamærin.

Yfirmaður 7. flugdeildar Bandaríkjahers og næstráðandi yfir herafla Bandaríkjanna í Kóreu segir heræfinguna sýna skuldbindingu Bandaríkjanna til þess að gæta öryggis bandamanna sinna. Stjórnvöld í norðri líta á heræfingar ríkjanna sem kjarnorkustríðsæfingar.

Kim Jong-un sagði í nótt að vetnissprengjutilraunin á miðvikudag hafi verið í sjálfsvarnarskyni til þess að koma í veg fyrir kjarnorkustríð við Bandaríkin. Það væri lögbundinn réttur Norður-Kóreu sem fullvalda ríkis og sanngjörn aðgerð sem enginn gæti gagnrýnt.