Bandamenn Kólumbíu í stríði og friði

05.02.2016 - 04:07
epa05143838 US President Barack Obama (R) turns the podium over to Colombian President Juan Manuel Santos (L) after delivering remarks at a reception for for Plan Colombia in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 04 February 2016. Plan
 Mynd: EPA  -  EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ætlar að fá leyfi frá Bandaríkjaþingi til þess að veita stjórnvöldum Kólumbíu 450 milljóna dala fjárstuðning til að liðka fyrir friðarviðræðum við skæruliða. Þá á fjárhæðin einnig að duga til þess að minnka við námuvinnslu og vinna að mannúðarverkefnum og baráttunni gegn eiturlyfjum.

Obama tók á móti Juan Manuel Santos, forseta Kólumbíu, í Hvíta húsinu í gær. Þar sagði Obama að þar sem Bandaríkin hafi aðstoðað Kólumbíu þegar ríkið hafi átt í stríði, muni Bandaríkin einnig aðstoða við að stuðla að friði í landinu. 
Santos segist búast við því að stjórnvöld og skæruliðahreyfingin Farc undirriti friðarsamning í mars, eftir fimm áratuga skærur. Í staðinn mun Farc taka þátt í almennum stjórnmálum í landinu. 

Santos sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, á miðvikudag að Farc hafi samþykkt að slíta öll tengsl við eiturlyfjasmyglara. Hann vonast til þess að skæruliðarnir geti aðstoðað stjórnvöld í baráttunni gegn eiturlyfjum.

Að sögn Natalio Cosoy, fréttamanns breska ríkisútvarpsins í Kólumbíu, eiga stjórnvöld enn í vandræðum með annan hóp uppreisnarmanna, ELN. Þeir eru öllu færri en Farc, með aðeins 1.400 skæruliða, en hafa valdið miklum skaða. Pattstaða er í viðræðum stjórnvalda við ELN.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV