Bandalagsþjóðir ræddu hernað í Líbíu

02.02.2016 - 18:55
epa05139994 Italian Foreign Minister Paolo Gentiloni (R) and US Secretary of State John Kerry talk during a joint press conference after a meeting of the US-led coalition against the Islamic State, in Rome, Italy, 02 February 2016. US Secretary of State
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, í Róm í dag.  Mynd: EPA  -  ANSA
Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, segir að tíminn til að koma á stöðugleika í Líbíu sé að renna út. Hann segir vísbendingar um aukin umsvif hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkið í Líbíu og í Afríku sunnan Sahara.

Í dag komu saman í Róm fulltrúar 23 ríkja sem tekið hafa þátt í hernaðinum gegn Íslamska ríkinu í Írak og Sýrlandi undir forystu Bandaríkjamanna.  Að sögn fréttastofunnar Al Jazeera voru þar meðal annars ræddar leiðir til að hindra það að samtökin kæmust til áhrifa eða valda í Líbíu og hætta á árásum þeirra á Vesturlöndum. 

Gentiloni sagði í viðtali við ítalska blaðið Messagero að hvorki stjórnvöld í Róm né bandalagsþjóðir fýsti það að fara í hernað í Líbíu. Sýna yrði fyllstu gætni því þegar þrengt væri að samtökunum á einum stað gripu þau gjarnan til hryðjuverka annars staðar.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði við fréttamenn í Róm að beinn hernaður gegn Íslamska ríkinu í Líbíu væri ekki á döfinni að svo stöddu, en þrýst væri á slíkar aðgerðir.

Fréttamaður Al Jazeera segir að bandalagsþjóðir séu að íhuga loftárásir á sveitir Íslamska ríkisins í Líbíu. Stærsti vandinn sé hins vegar sá að bandalagsþjóðir eigi enga áreiðanlega bandamenn þar. Þess vegna sé vonast til að mynduð verði traust og starfhæf stjórn sem stofnað gæti öflugan her til að berjast gegn vígamönnum.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór hörðum orðum um Íslamska ríkið og liðsmenn samtakanna á fundinum í Róm. Hann sagði samtökin samansafn af glæpmamönnum, - morðingjum, mannræningjum, smyglurum og þjófum. Þetta væru trúníðingar sem kæmu fram í nafni stórfenglegra trúarbragða en afbökuðu þau og færu með ósannindi í eigun þágu.