Baktería breytir mannkynssögunni

08.01.2016 - 05:36
I06 - 20000925 - BOLZANO, ITALY : (FILES) Undated file picture shows Italian scientists preparing the glacier-mumie, known as "Oetzi", in a room of a museum in Bolzano, northern Italy. "Oetzi" was defrosted on Monday, 25 September 2000
Vísindamenn rannsaka lík Ötzis.  Mynd: epa  -  ANSA_FILES
Bakteríur í þörmum ísmannsins Ötzi, 5.300 ára gamallar múmíu sem fannst í Ölpunum árið 1991, gefa ákveðnar vísbendingar um búferlaflutninga mannkyns á þeim tíma. Þetta kemur fram í nýjasta tímariti vísindaritsins Science.

Vísindamenn hafa nú athugað hvað finna mátti í maga Ötzis, sem lést af völdum örvarskots á göngu sinni um Alpana á milli Ítalíu og Austurríkis. Í maga hans gaf að líta ævaforna bakteríu sem hefur þróast í ólíkar áttir í hverjum heimshluta. Um helmingur mannkyns hýsir bakteríuna sem getur valdið magasárum. Bakterían dreifist helst meðal barna sem leika sér í drullu. Vísindamennirnir sem rannsökuðu Ötzi eru ekki vissir um að hann hafi orðið veikur af bakteríunni, en greining á landfræðilegri sögu hennar vakti athygli þeirra.

Samkvæmt niðurstöðum þeirra á bakterían í maga hans rætur að rekja til Asíu, en sú baktería sem flestir Evrópubúar hýsa í dag er af norður-afrískum uppruna. Ef sýnið úr maga Ötzis gefur rétta mynd af Evrópubúum fyrir 5.300 árum síðan bendir það til þess að búferlaflutningar sem báru afrískan uppruna bakteríunnar hafi ekki verið hafnir á þeim tíma sem Ötzi var uppi, að sögn Yoshan Moodley, vísindamanns við háskólann í Venda í Suður-Afríku.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir