Baghdadi talinn í felum í eyðimörkinni

epa04973404 (FILE) An undated file image of a frame from video released by the Islamic State (IS) purportedly shows the caliph of the self-proclaimed Islamic State, Abu Bakr al-Baghdadi, giving a speech in an unknown location. Iraqi military on 11 October
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins.  Mynd: EPA  -  EPA FILE/ISLAMIC STATE
Bandarískir og íraskir embættismenn telja að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins, sé ekki lengur í Mósúl, höfuðvígi samtakanna í Írak, og telja hann líklega í felum í írösku eyðimörkinni.

Ekki hefur borist hljóðupptaka frá Baghdadi síðan í nóvember, hálfum mánuði eftir að Íraksher réðst inn í Mósúl til að frelsa borgina úr klóm vígamanna.

Fréttastofan Reuters hefur eftir embættismönnum að forystumenn Íslamska ríkisins noti samfélagsmiðla minna en áður og það að ekki hafi heyrst frá Baghdadi síðan í nóvember bendi til að hann og helstu samstarfsmenn séu ekki í nánum tengslum við meginfylkingar samtakanna.

Síðan í nóvember hafi öðru hvoru birst fregnir á miðlum samtakanna um sjálfsvígsárásir í Írak og Sýrlandi, ekki sé sérstaklega fjallað um Mósúl þótt þar sé þungamiðja átakanna og yfirlýst höfuðvígi í Írak. 

Reuters segir að Baghadi hafi síðast verið nefndur í skýrslu Írakshers í síðasta mánuði, en þá hafi verið gerð loftárás á hús nærri sýrlensku landamærunum þar sem hann var talinn vera.

Líklegt sé að Baghdadi haldi til í eyðimörkinni vestur af Mósúl, norðan Efrat-fljóts á svæði sem nái frá bænum Baaj í norðvestri að sýrlenska landamærabænum Abu Kamal. 

Baghdadi leiti einkum skjóls hjá ættflokkum súnníta á svæðinu. Hann dvelji líklega skamman tíma á hverjum stað og skipti ört um farartæki á ferðum sínum.

Að sögn Reuters hafa meira en 40 forystumenn Íslamska ríkisins fallið í loftárásum Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra undanfarin misseri. Nokkrum sinnum hafa borist fregnir um að Baghdadi hafi fallið eða særst, en hann virðist enn á lífi. 

Reuters hefur eftir íröskum sérfræðingum í öryggismálum að Baghdadi hafi ekki opinberlega tilkynnt hver taki við félli hann frá, en hans hægri hönd sé Fadel Haifa, sem á sínum tíma hafi starfað hjá Saddam Hussein, fyrrverandi einræðisherra.

Samtökin Íslamska ríkið verði ekki auðveldlega kveðin niður þótt takist að ráða Baghdadi og helstu foringja hans af dögum og endurheimta Mósúl.