Bætur „hneykslanlega lágar og niðurlægjandi“

11.02.2017 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sanngirnisbætur eru hneykslanlega lágar og niðurlægjandi, segir formaður Samtaka vistheimilabarna. Þá verði þeir sem  misþyrmdu börnum að sæta ábyrgð. Samtökin hafa leitað til lögmanns til að kanna grundvöll  málaferla vegna mannréttindabrota á þeim börnum sem sættu illri meðferð á visheimilum ríkis og sveitarfélaga.

Börn voru beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi á Kópavogshæli í rúm fjörutíu ár. Þetta er niðurstaða vistheimilanefndar sem skilaði skýrslu sinni um hælið á þriðjudag. Forsætisráðherra bað í gær þá, sem vistaðir voru sem börn á Kópavogshælinu og fjölskyldur þeirra, afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Unnið væri að því að greiða þeim, sem urðu fyrir ofbeldi á Kópavogshæli, sanngirnisbætur.

Jón Magnússon er formaður Samtaka vistheimilabarna.  „Mestu fréttirnar hefur okkur fundist vera um þessar sanngirnisbætur sem eru ákveðnar einhliða af ríkinu. Það er alltaf verið að nefna einhverjar upphæðir, núna síðast var verið að tala um 7 milljónir. Það er alltaf verið að tala um hæstu tölur sem enginn hefur fengið. Ég hugsa að þetta hafi verið frá milljón upp í fimmtán hundruð þúsund sem greitt hefur verið í þessar bætur,“ segir Jón.

Þeir sem hafi fengið bætur hafi ekki getað fengið að sjá rökstuðning fyrir bótafjárhæðinni. Samtökin vilja að farið verði að fordæmi Norðmanna í þessum málum. „Hérna er bara búið eitthvert kerfi sem hentar og svo er settur einhver tengiliður til að knýja þetta ennþá meira niður. Þetta eru kannski hálf mánaðarlaun eða heil mánaðarlaun þingmanns fyrir að vera brotið þannig á fólki að það ber þess kannski merki alla ævi. Þetta eru hneykslanlega lágar bætur og fyrir marga er þetta mjög niðurlægjandi,“ segir Jón.

Ekki sé nóg að tala um sanngirnisbætur. Samtök vistheimilabarna hafa leitað til lögfræðings.  „Áherslan ætti kannski að vera meiri á það hvort þarna hafi ekki verið brotin mannréttindi. Við vorum aðili að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þá ber okkur að fara eftir honum. Það verður einhvern veginn að taka á svona málum þannig að sporin hræði svo þetta sé ekki að gerast aftur og aftur og aftur. Því þetta er ekki eina hælið þar sem var verið að fara illa með vistmenn. Svo er fólkið sem gerir þetta, það ber enga ábyrgð, ekki nokkra einustu ábyrgð. Heldur er verið að benda á ríkið að það hafi verið að svelta það með pening. Þetta er bara þannig að mannréttindabrot fyrnast ekki,“ segir Jón.