Bærinn á 100 bindi af Sögu Akranesbæjar

16.02.2016 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, segir í samtali við fréttastofu RÚV að íbúar bæjarfélagsins og aðrir áhugamenn um sögu þess þurfi litlar áhyggjur að hafa þótt skiptastjóri þrotabús Uppheima ætli að farga um 250 til 300 eintökum af Sögu Akranesbæjar bindi I og II. „Svo því sé til haga haldið þá á Akraneskaupstaður um 100 eintök af bókinni góðu, Sögu Akraness. Það þarf því enginn að óttast að sagan góða glatist,“ segir Regína.

Fréttastofa greindi frá því fyrr í dag að ekki hefði tekist samkomulag milli skiptastjórans og bæjarins um kaup á 250 til 300 bindum af Sögu Akranesbæjar - bindi I og II.

Skiptastjórinn vildi fá milljón en bærinn bauð hálfa milljón. „Menn halda alltaf að þeir geti fengið einhvern afslátt þegar þeir eiga við þrotabú,“ sagði Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Uppheima sem reiknaði með því að Saga Akranesbæjar myndi því enda á haugunum.

Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs, taldi það undarlega ákvörðun að farga þessum bindum -  skiptastjóranum stæði til boða hálf milljón. „En Akraneskaupstaður hefur engin sérstök not fyrir þetta þótt þetta sé veglegt ritverk og sómi á hverju heimili.“ 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV