Bæði Hlíðamálin felld niður

19.02.2016 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson  -  RÚV
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál manns sem ung kona kærði fyrir nauðgun í íbúð við Miklubraut í Reykjavík í september. Áður hafði saksóknari fellt niður nauðgunarmál sama manns og annars, sem önnur ung kona kærði fyrir nauðgun í sömu íbúð. Þau atvik áttu sér stað í október.

Málin vöktu athygli þegar greint var frá þeim á forsíðu Fréttablaðsins í byrjun nóvember. Þar var fullyrt að íbúð í Hlíðunum hefði verið útbúin til nauðgana, og eftir að fréttin birtist voru myndir af mönnunum birtar á samfélagsmiðlum og þeir nafngreindir. Þá mótmælti hópur fólks því við lögreglustöðina á Hverfisgötu að mennirnir hefðu ekki verið hnepptir í varðhald.

Héraðssaksóknari felldi í byrjun mánaðarins niður málið þar sem báðir mennirnir voru kærðir. Nú hefur hitt málið einnig verið fellt niður. Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður þess sem var kærður. Ekki voru taldar líkur á sakfellingu fyrir dómi. 

Konurnar geta kært ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara. Samkvæmt heimildum fréttastofu ætlar konan, sem kærði báða mennina, að gera það. Ekki mun liggja fyrir hvort hin konan kærir til ríkissaksóknara.