RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Axarskaft málfarsráðunautarins

Í síðustu viku sagði málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins í beinni útsendingu að hann hefði rétt upp hend. Enda gerði hann það.

Málvilla málfarslöggunnar

Öllu heldur rétti hann upp hönd og hafði orð á því þegar hann áttaði sig á að hlustendur gátu ekki séð það. Hann gæti auðvitað reynt að afsaka sig og slá um sig með fræðihugtökum, til dæmis með því að segjast hafa verið brosandi. Það er nefnilega lítill munur á því hvernig hljóðin e og ö eru mynduð. Ö er sagt með kringdar varir, eða stút á munninum en myndun e er nálægt því að vera bros. Þegar ö er sagt brosandi líkist það e í framburði.

Þetta væri þó í besta falli lygi. Hið rétta er að það er ávani, að segja „rétt upp hend“, sem ráðunauturinn kom sér upp sem barn og hefur gengið bölvanlega að venja sig af. Svo hafi hlustandi heyrt hann segja þetta er það án nokkurs vafa alveg hárrétt. Ráðunautnum til varnar upplýsist hér með að elsta dæmið um hendií nefnifalli í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá miðri 17. öld: „Fögur er nú hendin þín“ úr íslenskum fornkvæðum.

Beyging orðsins hönd

Það er skemmtilegt að skoða beygingu orðsins hönd; hönd, um hönd, frá hendi, til handar. Þetta er orð með óreglulega beygingu sem fjallað er um í flestum kennslubókum vegna þess að það er talið að það þurfi að kenna hana sérstaklega. Orðið hönd beygist ekki eins og önnur orð. Það beygist t.d. ekki eins og orðið strönd þótt þau rími. Munurinn kemur fram í þágufalli, strönd og hendi. Það er rík tilhneiging til að hafa nefnifallsmyndina hendi og það er t.d. gert í fótbolta þar sem það er alltaf kallað hendi að snerta boltann með höndunum og yrði aldrei kallað hönd. Og svo er það barnamálið sem ráðunauturinn er fastur í, þ.e. að segja rétt upp hend, t.d.: „Rétt upp hend sem vill koma með í bíó“.

Fleirtalan, sem er reglulegri en eintalan; hendur, um hendur, frá höndum, til handa; er líka til í ýmsum myndum, eða var hér áður fyrr þótt aðrar myndir en hendur séu að mestu horfnar. Til dæmis höndur, um höndur, frá höndum, til handa og handir, um handir, frá höndum, til handa. Það er erfitt að segja til um hvort þessar myndir þóttu rangar á sinni tíð. Þær þykja það alla vega ekki núna, heldur bara gamlar og horfnar. Kannski verður það eins með hendina eftir svo sem 50-100 ár.

 

20.10.2015 kl.11:05
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið