Aukin hernaðarleg ógn í Evrópu

11.02.2016 - 10:16
Meiri spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands er veruleiki sem við búum við í dag. Þetta eru þær Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Steinunn Þóra Árnadóttir nefndarmaður og þingmaður Vinstri grænna sammála um. Þær eru þó ósammála um hver viðbrögð Íslands ættu að vera í þeim efnum.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið leggur til að fjárframlög til Evrópuvarna verði fjórfölduð, í tillögum fyrir næsta ár, vegna árásargirni Rússa. 2,7 milljarða króna framkvæmdir í Keflavík við að færa í stand gamalt flugskýli, er liður í því. Steinunn Þóra kallar eftir frekari umræðu um þessi mál, bæði á vettvangi þingsins og meðal þjóðarinnar. Hún bað um fund í utanríkismálanefnd vegna frétta um uppbyggingu hersins í Keflavík en sá fundur verður í dag, fyrir hádegi. 

Mögulega fyrsta skref í átt að meiri viðveru
„Ég vil fyrst og fremst vita hvað það er sem Bandaríkjamenn eru að plana, hvað þeir hafa farið fram á og hvort þeir hafi farið fram á eitthvað við íslensk stjórnvöld og þá viðbrögð stjórnvalda við því. Ef þeir eru að sækjast eftir auknum umsvifum þarf að ræða það, ég hef áhyggjur af því að þetta sé fyrsta skrefið í meiri viðveru hersins hér á landi,“ segir hún. Fréttir af uppbyggingu hersins komu Steinunni Þóru á óvart. Það sama segir Hanna Birna, formaður nefndarinnar, þó hún taki fram að fyrstu fréttir af auknum umsvifum hersins, hafi gefið til kynna að eitthvað meira en uppbygging flugskýlis væri í bígerð. „Við erum með varnarsamning við Bandaríkin frá 1951 og hann er í gildi. Árið 2006 var gerður samningur um verkaskiptingu á herstöðinni. Það að þeir ákveði að laga flugskýli felur ekki í sér eðlisbreytingu á því,“ segir hún. 

Aukin hernaðarleg ógn í Evrópu
Hanna Birna segir að við horfum upp á aukna hernaðarlega ógn í álfunni, það sé verkefni stjórnvalda að takast á við það. „Stóra myndin er klárlega sú, tökum okkur og þetta flugskýli út úr myndinni, að við erum að horfa upp á ný og breytt samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Inn í það fléttast NATO og Evrópu. Það er talin stafa af Rússum aukin og meiri ógn en fyrir einhverjum árum síðan.“ Steinunn Þóra tekur undir þetta og segir staðsetningu Íslands skipta mjög miklu máli og telur að við gætum dregið úr spennu landanna á milli í stað þess að auka hana með frekari hernaðaruppbyggingu í Keflavík.