Aukin fasteignaviðskipti á Suðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson Jónsson  -  Jóhannes Jóhannes Jóhannes
Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga fasteigna á Suðurlandi nær þrefaldaðist í janúar. Heildarupphæð 36 kaupsamninga í fyrra var tæplega 460 milljónir, en heildarupphæð 55 kaupsamninga í ár er rúmlega 1,3 milljarðar. Þar af voru 42 kaupsamningar í Árborg, samtals fyrir tæpan milljarð. Greint er frá þessu á sunnlenska.is í dag.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á Suðurlandi í janúar var svipaður á árunum 2013 til 2015, en tók síðan stökk í nýliðnum mánuði. Þinglýstir samningar í Árborg hafa ekki verið svo margir síðan árið 2006, en þá voru þeir 50. Sjö samninganna 55 voru um eignir í fjölbýli, 30 um sérbýli og 18 um annars konar eignir. Markaðsfréttir Hagstofunnar birta á vef sínum upplýsingar um fjölda og heildarupphæðir kaupsamninga. Á vefnum er sérstaklega tekið fram að upphæðirnar megi ekki túlka sem meðalverð eigna eða sem vísbendingu um verðþróun. Hver samningur geti verið um fleiri en eina eign, eignir séu misstórar, misgamlar og svo framvegis.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV