Aukið ríkisframlag eða lægri ellilífeyrir

29.02.2016 - 19:51
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Greiðslur á örorkubótum úr lífeyrissjóðum aukast ef tillögur um breytingar á almannatryggingalögum verða að veruleika, segir formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Ef þær eigi að koma til framkvæmda verði aukið ríkisframlag að koma til.

Ein af tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um almannatryggingar er að lífeyrissjóðir hætti að líta til greiðslna frá almannatryggingum þegar örorkulífeyrisgreiðslur eru metnar. Þetta eigi að gera samhliða því að starfsgetumat verði tekið upp í stað örorkumats. Skerðingarhlutfall þessara tekna verði það sama og í öðrum tekjum, eða 45%.

Þorbjörn Jónsson formaður Landssambands lífeyrissjóða segir að fjárhagsleg áhrif á sjóðina hafi ekki verið skoðuð. „En það liggur nokkuð ljóst fyrir að þar sem er mikil örorkubyrði hjá lífeyrissjóðunum mun hún væntanlega aukast.“

Ef ríkið kemur ekki til móts við þetta myndi aukinn hluti útgjalda sjóðanna fara í örorkulífeyri. Þá yrði eitthvað annað að lækka á móti. „Ég sé ekki framgang þessara tillagna ef þær eiga að leiða til aukinna skuldbindinga lífeyrissjóðanna. Þá verða að koma einhverjar viðbótartekjur því ef við hækkum örorkuna eða örorkubyrði eykst þá lækkar ellilífeyririnn.“

Þorbjörn segir að lífeyrissjóðirnir hafi óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að kostnaðurinn verði metinn. Niðurstaðan ráði miklu um það sem á eftir komi. „Framhaldið ráðist þá af því hvort það er þá sátt um það að ríkið komi með aukið framlag til að jafna þessa byrði. Mér finnst það algjört grundvallaratriði til að tillögurnar geti gengið fram óbreyttar.“

Nefndin tekur í sínum tillögum undir þetta - forsenda fyrir þessu sé að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði milli sjóðanna verði endurskoðuð.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV