Aukið fé leysi ekki allan vanda spítalans

10.01.2016 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Auknir fjármunir leysa ekki allan vanda Landspítalans sem glímir núna við mikið álag vegna fjölda sjúklinga. Þetta segir landlæknir. Ekki bæti úr skák að stór hluti lækna sé ekki að sinna sjúklingum á spítalanum heldur séu á sínum einkareknu stofum.

Það hefur þurft að kalla úr óvenjumikinn auka mannskap á Landspítalanum síðustu daga. „Það hefur verið gríðarlega mikið álag,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum. „Það eru alltof margir sjúklingar á hverjum tíma sem bíða á bráðamóttöku eftir því að geta lagst inn á spítalann. Í dag eru það t.d. 16 og það lýsir kannski ástandinu að okkur þykir það ekki svo mikið en auðvitað er það alltof mikið,“ segir Ólafur.

Og þetta er vegna þess að sjúklingar á öðrum deildum eru þar að bíða eftir plássi á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Þrefalt til fimmfalt meiri kostnaður er við heilbrigðisþjónustu við aldraða en þá sem yngri eru. 2014 voru tæp tólf prósent Íslendinga eldri en 67 ára og meira en helmingur allra legudaga á Landspítalanum var hjá þessum hópi. Hagstofan spáir því að eldri borgurum fjölgi um sjötíu prósent á næstu fimmtán árum. 

Margir nýir sjúklingar komast ekki inn á stofu heldur bara í rúm. „Jafnvel í mörgum tilfellum á gangi niðri á bráðamóttöku við aðstæður sem eru ekki ákjósanlegar,“ segir Ólafur. „Það þyrfti úrræði í málum aldraðra og langveikra annars vegar og síðan þarf að sækja fram varðandi húsnæði spítalans og langtímafjármögnun þó ýmislegt hafi verið gert í skammtímafjármögnun nýlega,“ segir Ólafur.

Birgir Jakobsson landlæknir er efins um þetta. „Fjármagnið leysir ekki allt, það leysir kannski suma hluti,“ segir Birgir. Ekki sé hægt að halda áfram á sömu braut heldur þurfi að forgangsráða fjámunum og beina þeim í nýtt háskólasjúkrahús. „Og hvernig ætlum við að hafa starfsfólkið til staðar á því háskólasjúkrahúsi,“ segir Birgir. Þegar stór hluti lækna sé ekki á staðnum heldur á sínum einkareknu læknastofum bíði ákvarðanir um sjúklinga á spítalanum. „Ég hef ekkert á móti því að menn séu í einkarekstri eða slíku en að þjóna tveimur herrum. Ég held að það sé ekki gott mál og það býður upp á að þjónusta spítalans verður ekki eins skilvirk,“ segir landlæknir. 

Þá gefur Birgir lítið fyrir áhyggjur manna af því að aukið hlutfall aldraðra verði til þess að auka álagið í heilbrigðisþjónustunni. „Mér finnst það ekki vera málið núna. Öldrun þjóðarinnar er af hinu góða. Við erum með fullt af gömlu fólki sem er við góða heilsu og í raun vinnufært. Þannig að við verðum líka að horfa á það að öldrun þjóðarinnar er ekki baggi á þjóðinni,“ segir Birgir.

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV