Auka stuðning við flóttafólk umtalsvert

08.09.2017 - 07:40
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Útgjöld vegna móttöku flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi aukast um hundruð milljóna á næsta ári. Peningunum verður varið í íslenskukennslu, aðstoð við húsnæðisleit og fleira en ætlunin er að tryggja sem árangursríkasta aðlögun fólksins að íslensku samfélagi.

Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið og segir að upphæðin muni meira en tvöfaldast og fara úr 150 milljónum í 410 milljónir. Þorsteinn segir að verið sé að auka áherslu á málaflokkinn verulega. Markmiðið er að hans sögn að bæta þá þjónustu sem ríkið veitir fólki sem fær hæli hér á landi og gera hana sambærilega við þá aðstoð sem kvótaflóttamenn fá við að leita að húsnæði, atvinnu og fleira.

Velferðarráðuneytið er ábyrgt fyrir kvótaflóttamönnum þegar þeir eru komnir til landsins og hælisleitendum eftir að þeim hefur verið veitt hæli. Þorsteinn segir að fjáraukningin fari í að tryggja sem fólkið komist sem hraðast inn í samfélagið og verði virkir samfélagsþegnar.

Ríkisstjórnin samþykkti í lok síðasta mánaðar að bjóða allt að 55 flóttamönnum til Íslands á næsta ári og stefna að því að innan fárra ára yrði tekið við 100 flóttamönnum á ári.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV