Auglýsir ólaunað starf að mati BHM

12.02.2016 - 12:12
Mynd með færslu
Mynd úr safni  Mynd: Alec Wilson  -  Flickr
Mynd með færslu
Erna Guðmundsdóttir lögfræðingur Bandalags háskólamanna  Mynd: ruv
Bandalag háskólamanna gerir athugasemdir við að WOW air auglýsi eftir laganema með BA-gráðu í ólaunað tímabundið starf og telur það lögbrot. Lögfræðingur bandalagsins telur að færst hafi í aukana að fólk sé ráðið í ólaunuð störf.

Bandalagið krefst þess að WOW air, sem auglýst hefur eftir lögfræðinema í ólaunað starf, greiði fyrir það lágmarkslaun. Í auglýsingu WOW air eftir lögfræðinema á vefsíðu fyrirtækisins segir að starfsnámið sé 160 klukkustundir og felist einkum í gagnaöflun og lögfræðilegum greiningum á ýmsum réttarsviðum. BA gráða í lögfræði sé skilyrði og þá þurfi viðkomandi að hafa byrjað meistaranám. Krafist er frumkvæðis og sjálfstæðis í starfi. Tekið er fram að yfirlögfræðingur fyrirtækisins hafi yfirumsjón með verkefnunum. Starfið sé ólaunað en ef gagnkvæmur áhugi sé fyrir hendi gæti sumarstarf verið í boði. 

Erna Guðmundsdóttir lögfræðingur BHM sendi bréf til Wow air í gær fyrir hönd bandalagsins með athugasemdum. Hún segir að lögum samkvæmt eigi að borga fyrir starfið: „Þetta er ekki að okkar mati starfsnám heldur er um að ræða ólaunað starf sem að verið er að óska eftir að fá einhvern til þess að sinna.“ Hún bendir á að þarna sé skilyrði að viðkomandi sé með háskólapróf og vísar í lágmarkslaun Stéttarfélags lögfræðinga og lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Ólaunuð vinna háskólanema hefur aukist

Í bréfi BHM til WOW er bent á að íslenskir háskólar hafi búið til regluverk um starfsnám nemenda í framhaldsnámi. BHM hafi gert athugasemdir við reglur lagadeildar HR um ólaunað starfsnám. Háskólarnir skipuleggi starfsnámið í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki en í þessu tilviki virðist það ekki hafa verið gert.
„Okkur finnst vera að færast mjög mikið í aukana að háskólanemar sem eru jafnvel í framhaldsnámi og búnir með einhverja gráðu að þeir séu fengnir til þess að sinna störfum innan fyrirtækja og stofnana án þess að fá borgað fyrir það. En það eru óskýr mörk á milli starfsnáms annars vegar og ólaunaðs starfs hins vegar. Og við leggjum mikla áherslu á að greitt verði fyrir starfsnám annars mun þetta leiða til félagslegs undirboðs.“, segir Erna og bendir á að til lengri tíma þjóni ólaunað starfsnám ekki hagsmunum lögfræðingastéttarinnar. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV