Auðveldara að koma upp um skúffufyrirtæki

06.01.2016 - 16:24
Mynd með færslu
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri.  Mynd: RÚV
Auðveldara verður að koma upp um skattsvik í skúffufélögum erlendis nú þegar ríki OECD eru byrjuð að skiptast á upplýsingum um bankainnistæður. Þetta segir skattrannsóknarstjóri.

Nýjar reglur tóku gildi á Íslandi um áramótin þegar samræmdur staðall um skipti á fjárhagsupplýsingum var innleiddur. Ísland er eitt 52 ríkja innan OECD sem hefur innleitt staðalinn. Þetta þýðir að íslensk skattayfirvöld fá allar upplýsingar um bankainnistæður Íslendinga í öðrum löndum. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir þetta mikilvægan áfanga.

„Þessi upplýsingaskipti eru eitt skref í þeirri baráttu OECD sem hefur verið undanfarin ár í að efla upplýsingagjöf bæði til skattayfirvalda og milli skattayfirvalda einstakra ríkja til að draga úr alþjóðlegum skattaundanskotum.“

Bryndís segir að íslensk yfirvöld muni eingöngu fá upplýsingar um íslenska þegna.

„Það sem er kannski sérstakt við þessi upplýsingaskipti er að þær eiga sér stað án beiðni. Þær eru sendar sjálfkrafa og þá án þess að það liggi fyrir einhver grunur um undanskot eins og kannski á við um þá upplýsingaskiptasamninga sem hafa verið í umræðunni undanfarið varðandi skattaskjólin. Og síðan til viðbótar er mikilvægt í þessu samhengi að þarna eiga meðal annars að vera upplýsingar um raunverulega eigendur, meðal annars bankareikninga. Það er eins og við þekkjum oft einhver málamyndafélög eða skúffufélög eða einhverjir umboðsaðilar sem eru skráðir fyrir einstökum gjörningum,“ segir Bryndís.

Er þá sá möguleiki fyrir hendi að þið komist framhjá því þegar verið er að fela slóðir með skúffufyrirtækjum?

„Það er eitt af því sem skattayfirvöld vonast til þess að komist á með þessu að fá þarna þær upplýsingar sem hefur að þessu leyti verið mjög erfitt að nálgast.“

Þannig að þetta þýðir að þið munið eiga auðveldara með að uppræta skattsvik?

„Þetta er góður liður í þeirri baráttu, já,“ segir Bryndís.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV