Átti að borga fyrir vinnu á saumastofunni

20.02.2016 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson  -  RÚV
Maðurinn, sem var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald grunaður um mansal á saumastofu sinni í Vík, hefur fengið fólk til landsins frá heimalandi sínu, Sri Lanka, til að vinna fyrir sig. Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum manni sem kveðst hafa verið boðin vinna á saumastofunni gegn því að greiða tæpa milljón.

Fréttablaðið segir að fyrir þessa upphæð hafi hann átt að fá vinnu, húsnæði og uppihald.  Maðurinn ákvað að ganga ekki að þessu tilboði eftir að hafa orðið sér úti um upplýsingar um að ekki þyrfti að borga fyrir að fá vinnu hér á landi.

Maðurinn er grunaður um mjög alvarleg brot ef marka má yfirlýsingu lögreglunnar á Suðurlandi í gær. Refsiramminn við þeim er allt að tólf ára fangelsi. Hann er sagður hafa haldið tveimur konum í vinnuþrælkun á saumastofu sinni sem var meðal annars undirverktaki hjá Icewear. Þeim samningi hefur verið rift, að því er fram kom í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í gær.

Yfirvöld hafa áður þurft að hafa afskipti af manninum - fyrir áramót fór lögreglan á Suðurlandi á saumastofuna að beiðni Verkalýðsfélags Suðurlands og í ljós kom að þar var starfsfólk sem hafði ekki tilskilin leyfi. Það fór síðar úr landi.