Átta F-16 þotur seldar til Pakistans

13.02.2016 - 05:37
epa05126693 A Taiwan Army F-16 fighter jet takes off during a military drill in Chiayi, southern Taiwan, 26 January 2016. The Defense Ministry held the drill to show its determination to defend Taiwan against attacks from foreign countries.  EPA/RITCHIE B
F-16 orrustuþota.  Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn hefur samþykkt sölu á allt að átta Lockheed Martin F-16 orrustuþotum til Pakistans. Þjálfun flugmanna, ratsjár og ýmis búnaður annar sem tengist þotunum og notkun þeirra fylgir með í kaupunum, sem hljóða upp á jafngildi 90 milljarða íslenskra króna. Í tilkynningu frá undirstofnun varnarmálaráðuneytisins sem hefur eftirlit með vopna- og hergagnasölu bandarískra fyrirtækja til annarra landa, segir að þingið hafi verið upplýst um viðskiptin.

Salan á herþotunum er sögð stuðla að markmiðum bandarískrar utanríkisstefnu og stefnu um þjóðaröryggi, því með henni sé verið að styrkja og auka öryggi mikilvægs bandalagsríkis í S-Asíu.

„Fyrirhuguð sala eykur getu Pakistans til að takast á við núverandi og aðsteðjandi ógnir við öryggi landsins," segir í tilkynningunni. F-16 þoturnar geri pakistanska flughernum kleift að athafna sig í hvers kyns veðri, dag og nótt, auk þess sem þær „auki getu Pakistana til aðgerða gegn uppreisnarmönnum og hryðjuverkamönnum." Þá er fullyrt að þessi herþotuviðskipti, ef af verður, muni ekki breyta því hernaðarlega jafnvægi sem ríki í þessum heimshluta. 

Stjórnvöld í Indlandi, öðru mikilvægu bandalagsríki Bandaríkjanna í Suður-Asíu, eru ekki sannfærð, og ekki ánægð. Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum Indlands og Pakistans áratugum saman og ítrekað hefur slegið í brýnu milli þessara nágrannaríkja. Talsmaður indverska utanríkisráðuneytisins, Vikas Swarup, lýsti vonbrigðum sínum á Twitter.

„Við erum vonsvikin vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnar Obama, að leyfa sölu á F-16 þotum til Pakistans," skrifaði Swarup. „Við erum ósammála þeirri röksemdafærslu, að slík vopnasala gagnist í baráttunni gegn hryðjuverkum." Jafnframt sagði hann að bandaríski sendiherrann á Indlandi yrði boðaður á fund fljótlega, þar sem honum yrði kynnt óánægja indverskra stjórnvalda með þessi viðskipti með formlegum hætti. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV