Átökin um eftirmann Scalia þegar hafin

14.02.2016 - 06:45
epa05159259 (FILE) A file photo dated 08 October 2010 shows the high court sitting for a new group portrait inside the Supreme Court Building in Washington, DC, USA. Reports state on 13 February 2016 state that US Supreme Court Justice Antonin Scalia (2-L
Dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna. Antonin Scalia er annar frá vinstri í fremri röð.  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Antonin Scalia, einn íhaldsamasti dómarinn við hæstarétt Bandaríkjanna, lést í gær, 79 ára að aldri. Búast má við hatrömmum átökum um eftirmann hans, og þau eru reyndar þegar hafin. Í ávarpi sem Obama flutti skömmu eftir að tilkynnt var um andlát Scalia hét hann því að finna mann í hans stað við fyrsta tækifæri, í samræmi við stjórnarskrárbundna skyldu hans. Leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni vill að Obama láti eftirmanni sínum það eftir, að útnefna nýjan dómara.

Obama ávarpaði fjölmiðla síðdegis í gær og sagði tíma til stefnu fyrir hann að finna réttu manneskjuna og fyrir öldungadeildina til að fara yfir skipun hennar og greiða um hana atkvæði. Þetta væri skylda sem hann tæki alvarlega, og það ættu aðrir að gera líka. Skipun hæstaréttardómara væri ábyrgðarhluti, sem snerist ekki um flokkapólitík, heldur lýðræðið sjálft. 

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild þingsins var líka fljótur að bregðast við tíðindunum af andláti Scalia, en hann hefur nokkuð aðra sýn á skipan eftirmanns hans en forsetinn. Í yfirlýsingu frá McConnell segir að Obama ætti að láta það ógert að skipa nýjan dómara. Bandaríska þjóðin ætti að fá að hafa sitt að segja um hver yrði næsti dómari við æðsta dómstól landsins. Því sé rétt að bíða með skipun nýs dómara þar til eftir kosningar, og láta nýjum forseta það eftir. 

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild, var að vonum á öndverðum meiði við kollega sinn McConnell og hvatti Obama til að tilnefna eftirmann Scalia þegar í stað. Sagði hann það hina mestu hneisu ef öldungadeildarþingmenn repúblikana hygðust koma í veg fyrir skipan hæstaréttardómara áður en nýr forseti tæki við embætti í janúar á næsta ári. Mörg afar mikilvæg mál liggi fyrir réttinum sem brýnt sé að fá niðurstöðu í hið fyrsta, og því sé það skylda öldungadeildarinnar að greiða fyrir skipan nýs dómara.

Að láta líða heilt ár án þess að hafa fullskipaðan hæstarétt væri beinlínis skammarleg vanræksla á einni mikilvægustu skyldu öldungadeildarinnar sem stjórnarskráin kveður á um, sagði Reid.

Níu dómarar eru við hæstarétt. Hæstaréttardómarar eru skipaðir af forseta, en öldungadeild þingsins þarf að samþykkja skipun þeirra. Hæstiréttur hefur ítrekað gripið inn í bandarísk stjórnmál, nú síðast þegar hann úrskurðaði að fresta skyldi gildistöku lagabálks Obama-stjórnarinnar um mengunar- og loftslagsmál, sem setur miklar skorður við losun orkuvera og stóriðju á gróðurhúsalofttegundum.  Þá kom dómurinn nýlega í veg fyrir gildistöku nýrra innflytjendalaga, sem miðuðu að því að auðvelda ólöglegum innflytjendum að öðlast bandarískan ríkisborgararétt.

Fimm af níu dómurum hæstaréttar tilheyrðu íhaldsamari armi bandarískra stjórnmála meðan Scalia naut enn við, en hann var skipaur af Ronald Reagan árið 1986. Með því að skipa frjálslyndan dómara í hans staða getur Obama breytt valdahlutföllum og áherslum réttarins langt fram í tímann, því hæstaréttardómarar sitja til æviloka, kjósi þeir svo. Þrír af átta eftirlifandi hæstaréttardómurum eru komnir á áttræðisaldur. Eftirmaður Obamas, hver sem það  verður, gæti því haft afgerandi áhrif á samsetningu réttarins til langframa.

Undanfarna fjóra áratugi hafa að meðaltali liðið 67 dagar frá tilnefningu forseta til staðfestingar öldungadeildar á skipun hæstaréttardómara. Fastlega má reikna með að öldungadeildin, þar sem repúblikanar hafa öruggan meirihluta, taki sér að þessu sinni meiri tíma en það til að fara yfir bakgrunn hvers þess, sem Obama kann að tilnefna. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV