Ástralskur ísbrjótur strandar við Suðurskautið

25.02.2016 - 05:52
epa05179511 (FILE) An undated handout picture made available by the Australian Department of the Environment shows the Australian icebreaker Aurora Australis cruising through iced waters at sea in Antarctica. According to the Australian Antarctic Division
Ísbrjóturinn Aurora Australis á góðum degi  Mynd: EPA  -  AAP/AUSTRALIAN GOVERNMENT
Flaggskip ástralska ísbrjótaflotans, Aurora Australis, strandaði við Suðurskautslandið í gær, með 68 manns innanborðs. Allir eru heilir á húfi. Skipið lá fyrir landfestum í Horseshoe-höfn við Mawson-rannsóknarstöðina, með allri áhöfn og fjölda vísindamanna um borð, þegar á skall mannskaðaveður. Vindhraði fór yfir 36 metra á sekúndu þegar verst lét og svo fór að landfestar slitnuðu og skipið rak upp í landsteinana.

Í tilkynningu frá Suðurskautsstofnun Ástralíu segir að enginn leki hafi komið að skipinu enn og grannt sé fylgst með ástandi skipsskrokksins innan frá. Veður sé hins vegar enn svo slæmt að ekki sé hægt að skoða skipið að utanverðu. Áhöfn og vísindafólk verður um borð uns veðrinu slotar, sem vonast er til að verði þegar líður á morguninn. 

Viðbúnaðaráætlun liggur fyrir, fari svo að olíuleki komi að skipinu, segir í tilkynningu stofnunarinnar, en ekki er farið nánar út í það, í hverju hún felst. Þá er einnig byrjað að huga að því, hvernig koma megi ísbrjótinum aftur á flot. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV