Ástralir undirbúa stjórnkerfisbreytingar

25.01.2016 - 03:03
Queen Elizabeth II walks past the Ngemba Muranari dancers at the Muda Aboriginal Language and Cultural Centre in Bourke, 900 kilometers north west of Sydney, Australia 22 March 2000. The Queen is on a two week tour of Australia, her first since 1992.
Elísabet II er þjóðhöfðingi Ástralíu.  Mynd: epa  -  POOL_AP
Undirbúningur er hafinn við að gera Ástralíu að lýðveldi. Allir ríkisstjórar og svæðisleiðtogar utan eins hafa skrifað undir skjal því til stuðnings.

Í Ástralíu er þingbundin konungstjórn en Elísabet II Englandsdrottning er opinber þjóðhöfðingi landsins. Tillaga um lýðveldismyndun var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1999. Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, leiddi hóp lýðveldissinna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Eftir að hann settist í ráðherrastólinn lét hann hafa eftir sér að ekki væri tímabært að breyta stjórnarháttum fyrr en Elísabet II lætur af embætti.

Colin Barnett, ríkisstjóri í Vestur-Ástralíu, er sá eini sem ekki skrifaði undir stuðningsskjalið. Hann er hlynntur lýðveldismyndun en telur það ekki tímabært að svo stöddu. Aðrir leiðtogar eru sammála um að tímabært sé að kjósa þjóðhöfðingja í stað Englandsdrottningar.

Peter FitzSimons, leiðtogi lýðveldissinna, segir undirskriftir ríkisstjóranna sýna að útlitið hefur aldrei verið jafn bjart. Bæði ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan séu sammála um að slíta sambandinu við konungveldið.
Andstæðingar segja hins vegar að breytingarnar séu ótímabærar. Á meðan lýðveldissinnar geti ekki sýnt fram á hvernig lýðveldi muni bæta stjórnarhætti í landinu séu breytingarnar óþarfar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV