Ástralía: Metamfetamín fyrir 90 milljarða

15.02.2016 - 06:20
epa05161662 Seized drugs are seen on display, in the packaging they were concealed in, at the Australian Federal Police (AFP) headquarters in Sydney, Australia, 15 February 2016. A major operation by the Joint Organized Crime Group has resulted in the
190 lítrar voru í bjróstahaldarapúðum, en 530 lítrar til viðbótar fundust í litlum brúsum eða túbum, sem alla jafna geyma akrýl- eða olíuliti ætlaða listmálurum.  Mynd: EPA  -  AAP
Ástralska fíkniefnalögreglan lagði á dögunum hald á 620 lítra af fljótandi kristal-metamfetamíni. Þetta er mesta magn efnisins sem fundist hefur á einu bretti í sögu ástralíu. Fullunnið mundi það skila sér í 3,6 milljónum neysluskammta, sem metnir eru á jafnvirði um 90 milljarða króna á gangverði þessa eiturlyfs þar syðra. Þrír Hong-Kong búar og einn Kínverji voru handteknir vegna málsins, en rannsóknin hefur staðið í um þriggja mánaða skeið í samvinnu við kínversk lögregluyfirvöld.

Chris Sheehan, yfirmaður áströlsku alríkislögreglunnar, segir að efnt hafi verið til samstarfsins þegar ástralska toll- og landamæragæslan rannsakaði gám sem sendur var sjóleiðina frá Hong Kong til Sydney, en kom upphaflega frá meginlandi Kína. Sheehan segir gáminn hafa innihaldið gelpúða í brjóstahaldara, en púðarnir hafi reynst fullir af fljótandi metamfetamíni, 190 lítrum alls.

Málið var lagt í hendur alríkislögreglunnar, sem í framhaldinu þefaði uppi fimm geymslurými í Sydney, þar sem 530 lítrar af efninu fundust, faldir í málningartúbum ætluðum listmálurum. 

Sheehan heldur því fram að fjórmenningarnir, tveir menn á fertugsaldri og karl og kona á sextugsaldri, séu ekki peð í þessum umfangsmikla eiturinnflutningi, heldur þungavigtarfólk í skipulögðum glæpasamtökum. Verði þau sakfelld eiga þau lífstíðarfangavist yfir höfði sér.

Neysla metametamíns hefur aukist mjög undnfarin ár. Rannsókn sem gerð var fyrir stjórnvöld leiddi í ljós að neysla efnisins tvöfaldaðist á tímabilinu 2007 til 2013, og er talið að neytendur hafi þá verið 200.000 eða þaðan af fleiri. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV