Ástand gatna ekki verra en í fyrra

18.02.2016 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
„Þessi hefðbundna árlega úttekt á götum borgarinnar getur ekki farið fram fyrr en í apríl þegar við sjáum raunverulega hvernig göturnar koma undan vetrinum,“ segir Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg.

Ámundi segir almennt hægt að segja að ástandið á götum borgarinnar sé ekki mikið verra en það var í fyrra. Ekki sé þó hægt að fullyrða neitt í þeim efnum. Ástandið geti breyst á örfáum dögum við ákveðnar veðuraðstæður, segir hann og nefnir sem dæmi að skemmdir geti myndast fljótt í malbiki þegar frost og klaki og rigning og bleyta séu til skiptis. 

Ámundi segir að í fyrra hafi verið mikið framkvæmt og bætt í. Þá hafi verið framkvæmt fyrir um 700 milljónir króna. Það sé 23 prósenta aukning miðað við meðaltal síðustu tíu ára. „Framkvæmdirnar í ár verða af svipaðri stærð og í fyrra í peningum talið,“ segir hann. 

Ámundi segir að ekki hafi fleiri tilkynningar borist um holur í malbikinu en höfðu borist á sama tíma í fyrra. „Þetta er í góðu horfi ennþá og ekkert sem getur talist óvenjulegt eða sem menn anna ekki.“

Starfsmenn á bækistöðvum borgarinnar sjá um tilfallandi og almennar viðgerðir en verktakar eru fengnir í stærri framkvæmdir, segir Ámundi.  „Við vitum vissulega um götur sem við teljum að lifi alveg til vorsins, eru ekki það slæmar að hætta sé á ferðum.“  

Líftími á malbiksslitlagi sé misjafnt eftir götuflokkun og umferðarálagi. „Húsagata getur enst í 30 ár en umferðarmeiri götur endast kannski innan við tíu ár. Þar þarf meira að leggja yfir heilu göturnar aftur. Þetta er metið eftir hjólfaradýptum og öðru þess háttar.“ 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV